BF lék fyrir luktum dyrum í Fjallabyggð

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Ými í gærkvöldi í Íþróttahúsinu á Siglufirði. Tilkynnt var fyrr um daginn að leikið yrði fyrir luktum dyrum og voru því engir áhorfendur aðrir en umsjónarmenn leiksins, dómarar, stigaverðir og boltamenn. Búist var við jöfnum leik en Ýmir var ofar í stigatöflunni og þurfti BF á sigri að halda til að nálgast toppbaráttuna enn frekar.

Leikmenn Ýmis náðu sér ekki á strik í þessum leik, framspilið var ekki nógu gott á köflum og talsvert um mistök og voru smössin frá BF oft að rata beint í gólfið og var Maria Sageras sérstaklega hættuleg í framlínunni, og fékk hún boltann oft frá uppspilara liðsins.

BF leiddi alla fyrstu hrinu og komst þægilega frá þeirri hrinu. BF komst í 10-6 og 15-10 áður en Ýmir minnkaði muninn í 15-13. Í stöðunni 19-14 tóku gestirnir leikhlé til að reyna stöðva BF, en það gekk ekki eftir í þessari hrinu og BF vann 25-16 og voru komnar í 1-0.

Önnur hrina var aðeins jafnari og náðu gestirnir að komast yfir í eitt skipti, í stöðunni 0-1 ! Jafnt var í stöðunni 6-6 en BF náði þá fjórum stigum í röð og komst í 10-6 og 13-7 þegar gestirnir tóku leikhlé. Fljótlega var staðan orðin 17-11 og 18-12 en þá kom góður kafli hjá Ými sem minnkaði muninn í 18-17 og var skyndilega komin smá spenna í leikinn. BF voru mun sterkari í lokin og unnu hrinuna örugglega 25-20 og voru komnar í 2-0.

Gestirnir byrjuðu ágætlega í þriðju hrinu og komust í 1-3 og 5-6 en BF náði góðum kafla og breyttu stöðunni í 11-9. Leikurinn var jafn á þessum tímapunkti og Ýmir skoraði 4 stig í röð og BF svaraði með þremur til baka og var staðan orðin 14-13. BF stelpurnar voru aftur sterkari í lokin og komust í 20-16 og tóku gestirnir leikhlé. BF gerði fljótlega tvöfalda skiptingu og kláruðu leikin 25-18.

Frábær leikur hjá BF sem kláruðu Ými á 70 mínútum, Gonzalo þjálfari var líflegur á hliðarlínunni og gaf góð fyrirmæli til stelpnanna. BF er núna með 32 stig eftir 18 leiki, hafa unnið 10 leiki og tapað 8. Liðið getur komist í 4. sæti með sigri í næsta leik. BF á leik gegn KA-B 19. mars og Vestra 21. mars.