BF heimsótti Völsung á Húsavík – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar. Þakka Torginu kærlega fyrir stuðninginn í vetur í þessum umfjöllunum um BF.

Umfjöllun

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Völsung/Eflingu í lokaleik liðsins í deildinni á Íslandsmótinu. Völsungur var í næst neðsta sætinu fyrir leikinn og BF í neðsta sæti. BF var að leita að fyrsta sigrinum í deildinni en heimamenn höfðu unnið 5 leiki.

Gestirnir úr Fjallabyggð byrjuðu leikinn vel og voru í forystu alla fyrstu hrinuna. BF komst í 4-8, 8-12 og 9-15 með góðum kafla. Í stöðunni 11-17 tóku heimamenn leikhlé eftir góðan kafla BF strákanna. BF komst þá í 13-20 og aftur tóku heimamenn hlé en þeir höfuð engin svör við góðu spili BF í þessari hrinu. BF kláraði hrinuna með nokkrum yfirburðum 16-25 og voru komnir yfir 0-1.

Heimamenn byrjuðu svo af krafti í annarri hrinu og komust í 6-2 og tók þá BF strax hlé. Völsungur komst þá í 10-3 og 14-7. BF tók aftur hlé í stöðunni 16-8.  Völsungur komst í 20-11 en BF minnkaði muninn í 21-15. Heimamenn unnu hrinuna nokkuð þægilega 25-18 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Völsungur byrjaði þriðju hrinu aftur af krafti og komust í 11-5 og 15-8 en BF skoraði þá 4 stig í röð og var staðan 15-12. Völsungur komst þá í 18-15 og 20-17 og skoruðu svo 5 stig í röð og kláruðu hrinuna 25-17 og voru komnir í 2-1.

Allt var undir í fjórðu hrinu og byjraði BF ágætlega og komst í 1-5 en Völsungur jafnaði 6-6. Aftur var jafnt í 10-10  en þá tók Völsungur yfirhöndina og komst í 14-10 og 19-15. Spenna kom þá í leikinn þegar BF minnkaði muninn 20-19. Völsungur komst þá í 24-19 en BF setti aftur spennu í leikinn og minnkaði muninn í 24-22. En það var Völsungur sem átti lokastigið og unnu hrinuna 25-22 og leikinn 3-1.