BF heimsótti HK-B í Fagralund

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti HK-B í Fagralundi í dag í Benecta-deildinni í blaki. HK lék tvo leiki í miðri viku og vann Þrótt Vogum 0-3 en tapaði fyrir Hamar 1-3 í Fagralundi. BF lék í gær við úrvalslið Aftureldingar og tapaði 0-3 og komu þeir því ekki eins ferskir til leiks eins og HK sem hafði verið í 3 daga fríi. HK liðið er skipað nokkrum strákum sem eru í hóp hjá aðalliði HK í Mizuno deildinni og einnig strákum úr 2. flokki HK, einnig er í liðinu fyrrverandi landsliðsmaðurinn Emil Gunnarsson, og munar um minna. Allt mjög efnilegir og góðir leikmenn. BF var með sama hóp og leiknum í gær, með aðeins einn mann á bekknum. Nýi þjálfarinn hefur gert breytingar á skipulagi liðsins og er nú Tóti að leika sem Liberó. Þjálfarinn er lagt upp með að spila hraðan bolta og reynir uppspilarinn að spila eftir því, en það kemur of oft fyrir að boltinn er hreinlega of lágur og ekki næst að smassa boltann almennilega yfir netið, eða sóknarmaðurinn er hreinlega of seinn fyrir svona fasta skotbolta. Fastir skotboltar í uppspili hentar vel á miðju en eru erfiðari í spili út á kant og má engin mistök gera svo að það takist.

HK menn voru mættir með sína 11 menn og voru klárir í slaginn í fyrstu hrinu. BF byrjaði hrinuna með ágætum og komust í 0-3, 1-4 og 5-8. HK menn komust svo í gang og skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni í 11-8. BF gekk illa að vinna upp muninn og tóku leikhlé í stöðunni 16-12. HK voru langt komnir með að vinna hrinuna í stöðunni 21-14 en BF skoraði þá þrjú stig í röð og minnkuðu muninn í 21-17 og tók nú HK leikhlé. Heimamenn voru sterkari á lokakaflanum og kláruðu hrinuna hratt og örugglega 25-20.

HK menn höfðu einnig talsverða yfirburði í annarri hrinu og komust í 10-4 og tók nú BF leikhlé. Talsvert var um mistök leikmanna BF í þessari hrinu og fóru of margar uppgjafir beint í netið eða misskilningur var á milli leikmanna og datt boltinn í gólfið án þess að einhver gerði tilraun til að taka boltann.  Ef til vill þreyta í einhverjum leikmönnum eftir leik gærdagsins, en það vantað aðeins meiri ákafa á köflum. HK hélt áfram að raða inn stigum og komust í 17-6 og 20-7. Alls ekki góð hrina hjá BF en þeir komu þó aðeins til baka og áttu ágætis sóknir og í stöðunni 22-9 skoraði BF fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 22-12 og síðar í 24-15. HK var hinsvegar aldrei að fara tapa þessari hrinu og unnu örugglega 25-15.

Þriðja hrinan var sú jafnasta í leiknum og var jafnræði með liðunum í upphafi hrinunnar, jafnt var í stöðunni 4-4 og 11-11, en liðin skiptust á að leiða með 2-3 stigum og voru að skora 2-3 stig í röð á þessum kafla. HK tókst að komast í 17-13 en BF léku ágætan bolta og minnkuðu muninn 19-17. Aftur var jafnt í 20-20 og gerðu nú HK þrjú stig í röð og komust í 23-20 og tók þjálfari BF nú leikhlé. HK kláraði hrinuna og unnu 25-21 og leikinn sannfærandi 3-0.

BF liðið átti ekkert mjög sannfærandi leik á köflum en Ólafur Björnsson var þó mesta ógnin þegar uppspilið var með besta móti. Of mörg mistöku voru gerð í þessum leik sem er dýrkeypt gegn góðu liði eins og HK.  HK liðið gat leyft sér að skipta óþreyttum mönnum inná eftir þörfum, sem er eitthvað sem BF liðinu vantar að geta gert.

Þriðji tapleikur BF í röð í deildinni, en liðið á enn heilmikið inni og þjálfarinn er enn að kynnast liðinu og styrkleikum þess.