Blakfélag Fjallabyggðar lék sinn annan leik um helgina gegn sprækum Fylkismönnum í Fylkishöllinni. Fylkismenn fengu mun lengri hvíld á milli leikja en þeir léku við Hamar í Hveragerði, 28. október og unnu þar 2-3. BF keppti hins vegar við Þrótt Vogum í gær í löngum fimm hrinu leik, og mættu þeir því frekar þreyttir til leiks. Því miður þá voru einnig meiðsli og fjarvera hjá sterkum leikmönnum BF í þessari leikumferð. Mjög fáliðað var í stúkunni í þessum leik en færri en 10 manns voru mættir og flestir stuðningsmenn Fylkis.
BF byrjaði ágætlega í fyrstu hrinu og voru nokkuð sprækir fyrstu 10 mínúturnar og voru í forystu. BF komst í 2-6, 4-8 og 7-10 en þá fóru Fylkismenn að komast í gang og þreytan að detta verulega inn hjá BF. Fylkir jafnaði 11-11 og komust í 16-13 og tók þá þjálfari BF leikhlé. Seinni hluti hrinunnar var verulega erfiður og allt gekk upp hjá Fylki en lítið hjá BF. Fylkir komst í 23-17 og unnu hrinuna örugglega 25-17.
Í annari hrinu byrjaði Fylkir betur og komst í 3-0, 7-2 og 9-3. BF komst aðeins betur inn í leikinn með góðum sóknum og var Ólafur Björnsson þar mest ógnandi og skilaði góðum stigum og blokkaði einnig í hávörn. BF minnkaði muninn í 12-7 og skoraði svo fjögur stig í röð og var staðan orðin 12-11. Skömmu síðar Fylkir tók þá góða syrpu og skoruðu fjögur stig á móti engu og var staðan orðin 18-13. BF gerðu sig líklega til að koma til baka og minnkuðu muninn í 19-17 en Fylkis menn voru óþreyttari og skoruðu sex stig á móti einu og kláruðu hrinuna 25-18.
Í þriðju hrinu var að duga eða drepast fyrir BF og var jafnræði með liðunum fyrstu 10 mínúturnar. BF komst í 2-4 en Fylkir breytti stöðunni í 10-6. BF skoraði þá tvö stig en BF gerði næstu sex og var staðan orðin 16-8 og tók þjálfari BF leikhlé í þessari syrpu hjá Fylki. BF reyndu hvað þeir gátu að komast aftur inn í leikinn og minnkuðu muninn í 19-14 en hlutirnir voru að falla með Fylki í þessari hrinu einnig og unnu þeir hrinuna 25-16 og höfðu talsverða yfirburði í hrinunni og unni leikinn 3-0.
Þessi lið eru álíka á getu en BF vantar sárlega meiri breidd og eins og eru óreyndir leikmenn að stíga upp og fá mikla ábyrgð. Þegar leiknir eru tveir leikir með sólahrings millibili þá er nauðsynlegt að hafa tvo til þrjá spræka menn á bekknum til að leysa þegar þreytan er mikil. Sá lúxus var ekki í þessari ferð en vonandi í næstu heimaleikjum. Gonzalo þjálfari er þó klár á leikskýrslunni en kom ekki við sögu í þessum leik.
Móttakan hefur oft verið betri hjá BF en það var talsverð merki um þreytu og fékk uppspilari liðsins oft erfiða bolta til spila úr og var því uppspilið í samræmi við það á köflum. Inná milli komu svo stórgóðar sóknir hjá BF þar sem allt gekk upp, en þess á milli óþarfa mistök, röng uppstilling á liðinu eða mistök í sókn eða vörn.
BF hefur nú spiliað 6 leiki, unnið 2 og tapað 4. Liðið leikur næst 23. nóvember gegn Þrótti í Vogum á Siglufirði og verður það síðasti leikur karlaliðsins á þessu ári.