BF fékk skell gegn toppliði HK – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti toppliði HK-B í Digranesi í Kópavogi í gær í 1. deild karla í blaki. HK liðið er ógnarsterkt og hafði spilað 4 leiki á mótinu og unnið þá alla og ekki tapað hrinu fyrir þennan leik. BF hafði hinsvegar ekki spilað leik síðan í lok september þegar liðið tapaði gegn Völsungi. Í framhaldinu frestuðust tveir leikir sem BF átti gegn Hamar í byrjun nóvember. BF var því að leika sinn annan leik á tímabilinu gegn HK.

BF mætti með fámennan hóp í þetta verkefni og var aðeins einn varamaður til taks samkvæmt leikskýrslu. Sara Segarra Navas er þjálfari liðsins í ár. Þórarinn Hannesson og Óskar Þórðarson eru reynslumestu leikmenn liðsins, en talsverð nýliðun hefur orðið undanfarin ár og ungir strákar að taka við stóru hlutverki. Það vantaði nokkra sterka leikmkenn í liðið í þessum leik.

Fyrsta hrina gekk ágætlega hjá BF og hleyptu þeir HK ekki langt framúr. HK komst í 4-2 og 8-4 en þá kom góður kafli hjá BF sem minnkuðu muninn í 9-8 og tóku heimamenn leikhlé. HK komst þá í 13-8 og 15-10 með góðum leik.  HK lét ekki forystuna frá sér og komust í 17-11 og 20-15. BF tók hlé í stöðunni 22-17 en liðið náði ekki að minnka muninn í lokinn og vann HK hrinuna 25-19.

Önnur hrina gekk mjög illa og HK var mun betra liðið og komst í 7-0 áður en BF minnkaði muninn í 9-4. HK skoraði þá 9 stig í röð og komust í 18-4 og var framhaldið erfitt fyrir BF. HK komst í 21-7 og 24-9 en þá klóraði BF aðeins í bakkann og skoraði 4 stig í röð en HK vann hrinuna örugglega 25-13 og voru komnir í þægilega stöðu, 2-0.

Þriðja hrina var líka formsatriði fyrir firnasterka heimamenn, en liðið komst í 9-1 og 12-2 áður en BF tók hlé. HK leiddi áfram 16-5 og 20-6. BF náði aðeins að rétta stöðuna í lok hrinunnar og minnkaði muninn í 24-14 en HK vann hrinuna örugglega 25-14 og leikinn 3-0.

BF er því enn án stig eftir 2 leiki í deildinni, en síðari leikurinn geng HK verður í dag kl. 16:00 í Digranesi.