Berjadagar hefjast á morgun

Listahátíðin Berjadagar hefjast fimmtudaginn 13. ágúst og standa fram á sunnudag en hátíðin fer fram í Ólafsfirði. Hátíðin hefst með tónleikum í Ólafsfjarðarkirkju kl. 20:00.

Dagskrá:

Íslensk ljóð og blandaðar aríur. Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanó leika fjölbreytta dagskrá.

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran flytur ásamt Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara fjölbreytta dagskrá á opnunartónleikum Berjadaga 2015. Þar hljóma íslensk ljóð eftir Sigfús Halldórsson, Tryggva M. Baldvinsson og Sigvalda Kaldalóns.

Hanna syngur einnig erlendar ljóðaperlur eftir E. Grieg og færir​ sig yfir í söngleiki Jerome Kern og Meredith Willson þegar líður á kvöldið. Hanna Þóra Guðbrandsdóttir er nýkomin frá Noregi þar sem hún söng Gerhilde í óperunni Die Walküre Eftir R. Wagner í Norsku óperunni.