Bergþórutónleikar í Hofi á Akureyri

Hinir árlegu Bergþórutónleikar verða í Hofi í kvöld munu skarta stórskotaliði þar sem söngvararnir Eyjólfur Kristjánsson, Stefán Hilmarsson og Ellen Kristjánsdóttir verða í broddi fylkingar.  Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og kostar miðinn 3900 kr.

Í fyrsta sinn verða útsetningar Eyjólfs á lögum Bergþóru Árnadóttur  af geisladiskinum  Sýnir fluttar á sviði með hljómsveit, sem skipa Þórir Úlfarsson – píanó og hljómborð, Jón Elvar Hafsteinsson – gítar, Haraldur Þorsteinsson – bassi og Jóhann Hjörleifsson – trommur og slagverk.

Tónleikarnir verða fjölbreyttir að vanda. Fram koma ungar gestasöngkonur, þær Móheiður Guðmundsdóttir og Valný Lára Jónsdóttir. Sérstakir heiðursgestir verður hin fornfræga hljómsveit HÁLFT Í HVORU en í henni starfaði Bergþóra um hríð.  Það verður einstök upplifun að heyra þá félaga úr HÁLFT Í HVORU og Eyjólf rifja upp skemmtilegar sögur og söngva frá ferðum þeirra með Bergþóru.

Minningarsjóður Bergþóru Árnadóttur stendur að tónleikunum, en hann var stofnaður í framhaldi af vel heppnuðum tónleikum vorið 2008 og í kjölfar veglegrar heildarútgáfu með verkum söngkonunnar. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því að tónlist Bergþóru og minning lifi meðal þjóðarinnar. Árlegir minningartónleikar með mismunandi flytjendum og efnisskrá hafa notið mikilla vinsælda.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) var einn af frumkvöðlum vísnatónlistar á Íslandi og lengi vel atkvæðamesta konan í hópi söngvaskálda. Hún samdi gjarna lög við ljóð þekktra skálda, þ.á.m. Steins Steinarrs, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum. Á ferli sínum sendi hún frá sér sér allmargar hljómplötur og hélt fjölda tónleika hérlendis og í Skandinavíu.