Bergmenn á Dalvík fá aðgang að jörðum Dalvíkurbæjar

Lögð hafa verið fram drög að samningi um afnotarétt af landi Dalvíkurbyggðar til þyrluskíðaferða á milli Dalvíkurbyggðar og Bergmenn ehf, Klængshóli, 621 Dalvík.

Markmið Dalvíkurbyggðar með því að leigja Bergmönnum afnota- og nýtingarrétt á jörðum sínum og landsvæðum, er að skapa grundvöll fyrir frekari fjárfestingu í ferðaþjónustu á svæðinu, fjölga störfum og afla aukinna tekna í sveitarsjóð. Þrátt fyrir þessi skýru markmið vill sveitarfélagið samhliða tryggja eðlilegan umferðar- og umgengnisrétt almennings á hinum leigðu svæðum. Þá er skýrt milli samningsaðila að samningurinn hefur engin áhrif á heimildir eða rétt sveitarfélagsins til að skipuleggja frekar svæðin í þágu þess og íbúa Dalvíkurbyggðar, sbr. ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt samningsdrögunum þá veitir sveitarfélagið Dalvíkurbyggð Bergmönnum einkarétt til takmarkaðra afnota af landi sveitarfélagsins, og landi í umsjón sveitarfélagsins, eins og nánar er tilgreint í 2. gr. samnings þessa, á tímabilinu 1. mars til 15. júní ár hvert á samningstímanum. Afnotarétturinn nær m.a. til eftirtalinna jarða (þó ekki til ræktarlands): Holárkot, Gljúfurárkot, Sveinsstaðir (Sveinstaðaafréttur landnr. 152010) Ytra Holt (landnr. 151366), Böggvisstaðir (landnr. 151352), Upsir (landnr. 151373), Sauðanes (landnr. 151371) og Ólafsfjarðarmúli (landnr. 151845).
Samningstímabilið eru 12 ár en samningurinn skal endurskoðaður fyrst árið 2016.

Bæjarráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt samninginn og vísað honum til Bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar.