Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 145. sinn í dag 17. júní við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri. Alls voru 184 stúdentar brautskráðir frá MA.

Dúx skólans er Árni Stefán Friðriksson sem brautskráðist af raungreina- og tækniibraut með meðaleinkunnina 9,52. Þórey Steingrímsdóttir var semidúx með meðaleinkunnina 9,35. Bæði fengu þau fjölda verðlauna og viðurkenninga.  Það er gaman að segja frá því að þau eru gömul bekkjarsystkini úr Dalvíkurskóla.

Árni Stefán var í Gettu betur liði MA sem komst í undanúrslit í vetur. Hvatningarverðlaun MA fékk liðsfélagi hans úr Gettu betur, Sólveig Erla, en þau verðlaun eru ætluð nemanda sem hefur jákvætt viðhorf til náms, skólans og nemenda og hefur jákvæð áhrif á samfélagið í kringum sig.

  • Hæst í 1. bekk var Ragnheiður Alís Ragnarsdóttir 1F með 9,9
  • Hæstur í 2. bekk var Elvar Björn Ólafsson 2Z með 9,6
  • Hæst í 3. bekk var Þórey Steingrímsdóttir 3G með 9,8

Sigríður Steinbjörnsdóttir íslenskukennari lætur af störfum eftir 37 ára farsæla kennslu við skólann og var sérstaklega kvödd við athöfnina og fékk hún gullugluna, heiðursmerki skólans.

 

Það er löng hefð fyrir því að fulltrúar afmælisárganga komi að brautskráningu og styrkja flest Uglusjóð, hollvinasjóð MA. 50 ára stúdentar færðu skólanum glæsilegt listaverk, uglu eftir listakonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur. 60 ára stúdentar gáfu upptökur af söng kvartetts úr árganginum.

  • Fulltrúi 70 ára stúdenta var Hjörleifur Guttormsson
  • Fulltrúi 60 ára stúdenta var Jóhannes Vigfússon
  • Fulltrúi 50 ára stúdenta var Valgerður Gunnarsdóttir
  • Fulltrúi 40 ára stúdenta var Logi Már Einarsson
  • Fulltrúi 25 ára stúdenta var Elín Björk Jónasdóttir
  • Fulltrúi 10 ára stúdenta var Aðalsteinn Jónsson

Bjartmar Svanlaugsson flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta, hann var forseti skólafélagsins Hugins sem stýrði félagslífi nemenda í vetur.