Beint flug frá Bretlandi til Akureyrar

Breska ferðaskrifstofan Super Break mun á næstu dögum hefja sölu á ferðum til Norðurlands með beinu flugi frá Bretlandi. Þetta verður í fyrsta sinn sem boðið verður upp á beint flug til Akureyrar frá Bretlandi, en flogið verður alls átta sinnum frá átta mismunandi flugvöllum víðsvegar um Bretland. Þeirra á meðal eru Newcastle, Liverpool, Leeds, Bradford og Bournemouth. Samtals verður pláss fyrir um 1.500 farþega í þessum ferðum.

Fyrst um sinn verður boðið upp á átta ferðir, allar í janúar og febrúar árið 2018, en sérstök áhersla verður lögð á norðurljósaferðir. Boðið verður upp á þriggja til fjögurra daga ferðir og auk gistingar verður boðið upp á ferðir í Mývatnssveit. Ferðamennirnir geta svo bætt við ferðina eftir eigin óskum, til dæmis með heimsókn í Bjórböðin, hvalaskoðun eða hestaferðir svo eitthvað sé nefnt.

Þessar ferðir Super Break eru viðbragð við vaxandi eftirspurn eftir ferðum til Íslands, en þetta er í fyrsta skipti sem ferðaskrifstofan býður upp á sitt eigið leiguflug. Ánægjulegt er að sjá að svo virðist sem áhugi Breta á Íslandi fari síst dvínandi þrátt fyrir gengisbreytingar sömuleiðis er það fagnaðarefni að verið sé að fljúga með ferðamenn til Akureyrar á vetrartíma.

Á bloggsíðu Super Break má finna nýjan pistil þar sem fjallað er lauslega um matarmenningu á Ísland.

Heimild: akureyri.is