Flugfélag Íslands hefur beint innanlandsflug milli Keflavíkur og Akureyrar í febrúar 2017 í tengslum við millilandaflug í Keflavík. Flogið verður allan ársins hring milli Keflavíkur og Akureyrar, en auk þess hagræðis sem þetta hefur í för með sér fyrir íbúa á Norðurlandi sem vilja nýta sér millilandaflug, er gert ráð fyrir að þetta verði til þess að fjölga enn frekar ferðamönnum á landsbyggðinni. Á þessu stigi verður þetta flug eingöngu í boði fyrir farþega sem eru á leið í eða úr millilandaflugi í Keflavík og geta farþegar sem nýta sér þessa þjónustu ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar í Evrópu eða Norður Ameríku. Fyrsta flug milli Keflavíkur og Akureyrar verður þann 24. febrúar 2017.
„Við höfum verið að skoða þennan möguleika um nokkurt skeið og það er alveg ljóst að þetta auðveldar ferðamönnum enn frekar að ferðast áfram innanlands. Þá hefur hvatning Norðlendinga haft sitt að segja, enda mun þessi nýja flugleið stytta ferðatímann allverulega þegar farið er í utanlandsferðir,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.
Flogið verður sex sinnum í viku milli Akureyrar og Keflavíkur yfir vetrartímann og þrisvar sinnum í viku yfir sumartímann.
„Hin mikla fjölgun ferðamanna til Íslands hefur aukið álagið á vinsælum ferðamannastöðum á suðvesturhorni landsins. Að fullnýta tækifærin á landsbyggðinni er eitt af höfuðverkefnunum sem íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir. Þessi nýja flugáætlun á heilsársgrunni mun styðja verulega við þá áskorun. Markmiðið er að þetta flug tengi við sem flest millilandaflug til og frá Keflavík,“ segir Árni.
Heimild: flugfelag.is