Beinhákarl (Cetorhinus maximus) fannst um klukkan 10:20 í morgun á Ósbrekkusandi í Ólafsfirði. Ferðaþjónustuaðilinn Fairytale at sea frá Ólafsfirði kom auga á hákarlinn í morgun, og er talið að um sé að ræða beinhákarl.

Beinhákarl er næststærsta fisktegund í heimi.  Hann er eini hákarlinn með beinkennda stoðgrind í stað brjóskkenndrar eins og hinar rúmlega 300 tegundirnar hafa.  Beinhákarlar gjóta ungum en ekki eggjum eða pétursskipum eins og flestir aðrir hákarlar.  Beinhákarlinn syndir með risavaxinn skoltinn galopinn og talið er að á hverri klukkustund síi hann allt að 2.000 lítra af sjó. Sjórinn berst í gegnum tálknagrindina þar sem hár sía smádýrin úr sjónum.

Beinhákarlar eru algengastir á strandsvæðum með mikla framleiðni, svo sem við strendur Íslands. Fæða þeirra er eins og áður segir dýrasvif sem heldur sig í efstu lögum sjávar, til dæmis örsmáar krabbaflær, lirfur fiska og hryggleysingja og hrogn. Lifrin í beinhákarlinum getur vegið allt að 25% af heildarlíkamsþyngd dýrsins en það gefur honum mikla flothæfni í vatni. Beinhákarlar halda sig á grunnsævi og oft má sjá bakuggann og trjónuna þar sem hann syndir hægt og letilega um sjóinn.