Bátar rákust saman norðan við Siglufjörð

Engin slys urðu á fólki þegar línubáturinn Jonni og tæplega hundrað tonna stálbáturinn Siglunes rákust saman skammt norðan við Siglufjörð um klukkan 12 í dag. Línubáturinn er úr plasti og er tæplega fimmtán tonn. Er hann laskaður að aftan að sögn lögreglu en hann sigldi þó sjálfur í land eftir óhappið.

Var Jonni við veiðar þegar bátarnir rákust saman en Siglunesið var á leiðinni út. Að sögn lögreglu var aldrei hætta á að plastbáturinn sykki.

“Þetta er helvíti mikið högg. Það kemur bara á skásta stað, hann kemur aftan til á hann á ská. Það hefði ekki verið gott ef hann hefði farið þvert á hann,“ segir Gunnlaugur Oddsson, eigandi útgerðarinnar Sigluness sem gerir út línubátinn Jonna sem lenti í árekstri við stálskipið Siglunes í hádeginu.

Enginn slasaðist í árekstrinum en bátverjar á Jonna voru að draga línu þegar óhappið varð. Segir Gunnlaugur að skemmdirnar séu ekki stórvægilegar á bátnum en vélarhúsið sé allt brotið og sprungið niður fyrir sjólínu. Hægt var að sigla bátnum til hafnar þar sem lokið var við að landa áður bátverjar fóru í skýrslutöku hjá lögreglu.

Ljósmynd: Héðinsfjörður.is

mbl.is greinir frá