Barn dróst með rafskútu á Akureyri

Í dag barst Lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynning um að barn hefði verið á rafskútu (rafmagnshlaupahjóli) hjólaleigunnar Hopp sem var að opna leigu á Akureyri. Alla jafna telst það ekki til tíðinda að barn sé að hjóla á rafskútu. Eins er opnun þessarar leigu á Akureyri bara hið besta mál, fari leigutakar að reglum fyrirtækisins. Samkvæmt reglum Hopp þurfa leigutakar að vera 18 ára og eldri til að mega leigja hjól.

Viðkomandi barn var um 10 ára gamalt. Það sem gerðist var að barnið gat ekki valdið hjólinu að fullu vegna stærðar og þyngdar og við gangbraut eina á Akureyri, gerðst það að hjólið fór af stað og togaði barnið út á götuna og hársbreidd munaði að bifreið yrði ekið á barnið og þeirri bifreið var ekið á umferðarhraða, á um 50 km/klst. Vegfarendur sem þetta sáu var mikið niðri fyrir vegna þessa atviks og í áfalli. Það þarf ekki að fjölyrða um hvað hefði getað gerst ef illa hefði farið.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá þessu í dag.

Myndlýsing ekki til staðar.