Baráttusigur gegn Haukum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Hauka á Ásvöllum í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Leikið var í 17. umferð Íslandsmótsins og fer nú leikjum fækkandi. KF sat í 6. sætinu fyrir leikinn og Haukar í 5. sæti og munaði 8 stigum á liðunum. Þessi lið hafa ekki mæst oft á síðustu 10 árum en KF hefur ekki unnið Hauka í mótsleik á þeim tíma. Haukar unnu öruggan sigur á Ólafsfjarðarvelli fyrri í sumar 0-3 og var búist við erfiðum leik í Hafnarfirði. Valur Reykjalín fyrrum leikmaður KF byrjaði leikinn á bekknum fyrir Hauka en hann hefur leikið 10 leiki fyrir liðið í sumar.

KF var með sitt sterkasta lið í þessum leik en Hákon Leó vinstri bakvörður liðsins byrjaði þó óvænt á bekknum og Miloudi Khamlichi var í fyrsta skiptið í byrjunarliðinu en hann hefur komið inná sem varamaður í síðustu tveimur leikjum.

Það voru Haukarnir sem gerðu fyrsta mark leiksins aðeins nokkrum mínútum fyrir leikhlé og leiddu þeir 1-0 í hálfleik.

KF strákarnir komu sterkir inn í seinni hálfleik og voru staðráðnir í að jafna leikinn. Þjálfari KF gerði eina breytingu í leikhlé og kom Bjarki Baldursson inná fyrir Sævar Gylfa. Halldór Mar skoraði gott mark á upphafsmínútum síðari hálfleik, hans annað mark í deild og bikar í sumar. Markið kom á góðum tíma og voru KF strákarnir hvergi nærri hættir. Haukar gerðu fljótlega tvöfalda skiptingu eftir markið.

Um miðjan síðari hálfleik skoruðu KF strákarnir sitt annað mark, en það var Sachem sem það gerði, (Theodore Develan Wilson), hans 8. mark í 16 leikjum í sumar. Staðan orðin 1-2 á þessum erfiða útivelli.

Sindri Leó Svavarsson markmaður KF lokaði markinu vel í þessum leik og varði vel á köflum og hélt KF inní leiknum. Hann hefur leyst af Halldór Ingvar í síðustu leikjum vegna hans meiðsla og staðið sig með sóma. Þjálfari KF gerði svo fjórar skiptingar á lokamínútum leiksins ,en aðeins eina í einu til að brjóta upp leikinn og var þetta mjög góð taktík á þessum tímapunkti. Haukar settu Val Reykjalín inná þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiktímanum.

Fleiri urðu mörkin ekki og frábær útisigur á Haukum í þessum baráttuleik. KF minnkaði þar með forskot Hauka niður í 5 stig.