Knattspyrnumaðurinn Baldvin Freyr Ásmundsson hefur gert félagsskipti úr Mídas í Knattspyrnufélag Fjallabyggðar. Baldvin er fæddur árið 1995 og fær leikheimild 21. febrúar til að spila með KF.  Hann hefur leikið í 4. deildinni síðustu árin og hefur leikið 25 leiki og gert 3 mörk síðustu 3 árin.  Hann hefur meðal annars leikið fyrir Skallagrím og Úlfana, en lék upp yngri flokkana með Fram. Hann var á samning hjá Fram á árunum 2014-2016 en lék þá sem lánsmaður í 4. deildinni.

Baldvin lék 2 leiki á Kjarnafæðismótinu með KF í janúar og febrúar og var í byrjunarliðinu í þeim leikjum. Það voru fleiri leikmenn til reynslu í þessum leikjum, og fleiri leikmenn bætast mögulega við á næstu vikum og mánuðum fyrir baráttuna í 3. deildinni, en eins og síðasta ár þá stefnir KF að komast aftur í 2. deildina.