Bæjarstjóri Fjallabyggðar vill nýta flugvallarsvæðið betur á Siglufirði

Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar hefur lagt fram minnisblað til bæjarráðs Fjallabyggðar varðandi flugvöllinn á Siglufirði og fasteignir á flugvellinum. Bæjarstjórinn vill þróa Siglufjarðarflugvöll og svæðið í kringum völlinn, þ.e. flugbrautina, flughlað, mannvirki ásamt landsvæði við flugvöllinn, á þann hátt að svæðið geti orðið öflug stoð undir atvinnulíf í sveitarfélaginu. Isavia afsalaði Fjallabyggð árið 2015 til fullrar eignar flugstöðvarbyggingu, tækjageymslu, flughlaði og flugbraut á Siglufjarðarflugvelli. Í dag er flugvöllurinn skráður sem lendingarstaður og hefur leyfi til þess að vera það allt til 24. júlí 2024. Leiða má líkum að því að allnokkur verðmæti liggi í mannvirkjum sem er til staðar á flugvellinum á Siglufirði. Á hinn bóginn er nýting mannvirkja lítil sem engin og not sveitarfélagsins af þeim ekki fyrirsjáanleg. Mannvirkin og svæðið þar um kring er því hvorki að skapa atvinnu né skila tekjum inn í sveitarfélagið. Þau verðmæti sem eru til staðar gætu að mati undirritaðs, ef vel tekst til, orðið grunnur að öflugri atvinnustarfsemi.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að heimilað  verði að auglýsa fyrir hönd sveitarfélagsins eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um nýtingu fasteigna á flugvallarsvæðinu á Siglufirði með það að leiðarljósi að þar geti orðið til öflug atvinnustarfsemi til framtíðar. Tillögur eða hugmyndir sem kunna berast verða lagðar fyrir bæjarráð Fjallabyggðar sem tekur ákvörðun um frekari meðferð þeirra og afgreiðslu.

Þetta kemur fram í minnisblaðinu og í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar.