Eftirfarandi erindi hefur Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sent til stjórnvalda vegna hugsanlegra áforma um gjaldtöku í jarðgöngum á Íslandi.

Efni: Frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur
samgönguinnviða – 153. Löggjafarþing. IRN22060157.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar fagnar aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á þjóðhagslega arðsamar
flýtiframkvæmdir í samgöngum, en fordæmir harðlega þá hugmynd að taka upp gjaldtöku í öllum
jarðgöngum landsins, óháð staðsetningu og ástandi, til að standa undir kostnaði við framkvæmdirnar.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar hvetur til að aðrar og sanngjarnari leiðir til fjármögnunar á
samgöngumannvirkjum séu skoðaðar. Sú ákvörðun sem hér um ræðir að stofna til hlutafélags sem
hefur heimild til gjaldtökunnar er fyrsta skrefið í þeirri vegferð að færa okkur nær slíkri gjaldtöku. Það
er hreint út sagt galinn gjörningur að fara af stað með slíkt opinbert hlutafélag og heimildir, á meðan
að nánari útfærslur og skilgreiningar eru ekki fyrir hendi. Eins lýsir bæjarstjórn Fjallabyggðar yfir furðu
sinni á að málið sé birt í samráðsgátt stjórnvalda á þeim tíma þegar þorri landsmanna er í sumarleyfi.
Með innheimtu veggjalda á þá sem fara um jarðgöng er verið að leggja gjald á notendur einnar
tegundar samgöngumannvirkja þ.e. jarðgögn og láta notendur þeirra greiða fyrir samgöngubætur
annars staðar á landinu. Nái þessar fyrirætlanir fram að ganga er gjaldtakan að leggjast afar þungt á
fámenn byggðalög sem ekki mega við slíkum álögum.

Fjallabyggð er líklegast það byggðarlag sem myndi fara hvað verst út úr gjaldtöku á öll jarðgöng, þar
sem jarðgöng eru sitt hvorum megin við bæjarfélagið þ.e. Strákagöng og Múlagögn auk þess sem
Héðinsfjarðargöng tengja bæjarfélagið saman. Íbúar Fjallabyggðar gætu þá hvorki farið á milli
bæjarhluta til að sækja almenna þjónustu eða atvinnu innan bæjarfélagsins, né út úr bænum nema
gegn gjaldi um löngu úreld samgöngumannvirki, nái þær hugmyndir fram að ganga að viðhafa
gjaldtöku í öllum jarðgöngum landsins. Því er ljóst ef litið er til áforma innviðaráðherra á gjaldtöku á
öllum jarðgöngum landsins, að mun þyngri byrðar eru lagðar á íbúa Fjallabyggðar en aðra íbúa
landsins. Eins er spurning hvort þessi gjörningur samrýmist stjórnarskrárvörðum réttindum borgara
og jafnræðisreglu, að lítill minnihluti íbúa landsins þurfi að greiða daglega gjald til að sækja t.d. skóla
og heilbrigðisþjónustu í sínu bæjarfélagi.

Innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur boðað gjaldtöku í öllum jarðgöngum landsins
annars vegar til að standa undir auknum rekstri þeirra og hins vegar til að búa til einhverskonar
sjóðsstreymi til að standa undir framtíðar jarðgangagerð. Eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum,
áætlar ríkið að mæta ríflega helmingi 45 milljarða króna kostnaðar vegna Fjarðarheiðarganga með
nýrri gjaldtöku af umferð um önnur jarðgöng í landinu.

Í Samgönguáætlun 2020 til 2034 sem vitnað er í, í áformaskjali um lagasetningu kemur fram í 1. grein
um framtíðarsýn og meginmarkmið, að stefnt verði að því að samgöngukerfi landsins myndi eina
samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Aðgengi fólks að þjónustu og vörum verði
tryggt og hreyfanleiki bættur. Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug
sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Ennfremur segir að meginmarkmið áætlana í
samgöngu- og sveitarstjórnarmálum sé að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum
samfélagsins og að sjálfbærar byggðir og sveitarfélög verði um land allt.
Með þeim gjörningi sem hér um ræðir, að leggja gjald á öll jarðgöng landsins er innviðaráðherra að
fara gegn þessari framtíðarsýn og meginmarkmiðum samgönguáætlunar. Með gjaldtöku í göngum
innan sameinaðs sveitarfélags er verið er að sundra Fjallabyggð í stað þess að mynda samþætta heild
sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Enn fremur er verið að taka til baka stóran hluta af þeim
mikla ávinning sem skapaðist með sameiningu sveitarfélaganna Siglufjarðar og Ólafsfjarðar á sínum
tíma. Þar að auki verður seint séð hvers vegna gjaldtaka um fáfarin jarðgöng eigi að standa undir að
frekari uppbyggingu í vegakerfinu, þegar almennt er vitað um mun hagkvæmari leiðir fyrir stjórnvöld
til innheimtu en með beinni gjaldtöku á vegum.

Nánar um Fjallabyggð og hugsanleg áhrif ef tekin verður upp veggjöld á öll jarðgöng

Héðinsfjarðargöng eru innanbæjar í Fjallabyggð. Veggjöld á Héðinsfjarðargöng, Múlagöng og
Strákagöng myndu hafa gríðarlega slæm áhrif á fyrirtæki og stofnanir í bæjarfélaginu og skerða
samkeppnishæfni svæðisins. Fyrirtæki og stofnanir á svæðinu, ferðaþjónustuaðilar, Menntaskólinn á
Tröllaskaga og Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð reiða sig á starfskrafta úr báðum
bæjarkjörnum auk þess sem stofnanir bæjarins, menntaskólinn og heilbrigðisstofnunin er að
þjónusta alla íbúa Fjallabyggðar.

Öll starfsemi stofnana Fjallabyggðar er byggð upp með þeim hætti að samstarf og samnýting milli
starfsstöðva stofnana sé sem mest og kallar það á mikinn samgang milli bæjarkjarna og þá akstur
gegnum Héðinsfjarðargöng.
Mikil hætta á bakslagi í þeirri óendanlegu vinnu við að sameina íbúa Fjallabyggðar í eina heild með
markvissu starfi þvert á sveitarfélagið. Ljóst er að íbúar og aðilar munu síður taka þátt í viðburðum og
starfi hinum megin Héðinsfjarðargangna ef þeir þurfa að greiða veggjald við hverja ferð.
Þegar horft er til nágrannalanda okkar hefur það lengi tíðast að gjaldtaka fyrir notkun á samgöngum
fari fram við ytri mörk sveitafélaga, einmitt til að sporna við þessu áhrifum.

Öryggismál

Strákagöng og Múlagöng eru einbreið göng og löngu orðin úreld sem samgöngumannvirki. Gjaldtaka í
fyrir notkun á svo frumstæðum mannvirkjum er vart verjandi. Um árabil og þar til í fyrra hefur
Slökkvilið Fjallabyggðar krafist þess að Vegagerðin efli/bæti öryggi í Múlagöngum,
Héðinsfjarðargöngum og Strákagöngum þar sem unnið var eftir lögum og reglum um brunavarnir og
reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng nr. 992/2007. Þá hefur Samgöngustofa gert úttekt á
göngunum og tók undir kröfur slökkviliðsins um úrbætur.

• Bent hefur verið á að klæðningar í Múlagöngum og Strákagöngum eru ekki eldvarðar.
• Ekkert útvarpssamband er í göngunum til að tryggja að hægt sé að senda neyðarboð í
gegnum göngin.
• Farsímasambandi er afar ábótavant.
• Tetra samband er slitrótt eða jafnvel ekkert.
• Of langt er á milli neyðarstöðvar í Héðinsfjarðargöngum
• Engin neyðarlýsing er í Héðinsfjarðargöngum og Strákagöngum.
• Slökkvivatn við göngin er ekki tryggt og hingað til hefur Vegagerðin hafnað því að koma að
endurnýjun búnaðar til þess að tryggja meðal annars þessa þætti
• Óskað hefur verið eftir því að samningur sé gerður á milli slökkviliðs og Vegagerðarinnar um
reglulegar æfingar í göngunum samkv. kröfum en stofnunin hefur dregið lappirnar í því.
• Áhættumat Vegagerðarinnar fyrir göngin er orðið úrelt.

Á síðasta ári var öryggiskröfum fyrir jarðgöng breytt með nýrri reglugerð 895/2021 og féll þá sem var
úr gildi. Jarðgöng voru þá flokkuð í þrjá flokka. Þau sem eru í flokki I eru þau sem tilheyra
samevrópska vegakerfinu og öll jarðgöng sem tekin voru í notkun eftir 30. apríl 2006. Í flokki II eru
svo jarðgöng sem standa utan samevrópska vegakerfisins sem tekin voru í notkun fyrir 1. maí 2006.
Jarðgöng á Tröllaskaga eru því öll í flokki II og III og í þeim eru gerðar lakari öryggiskröfur heldur en í
flokki I. Fyrrverandi bæjarstjóri og slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar skrifuðu umsagnir í samráðsgátt
Stjórnvalda í aðdraganda breytinganna en ekki var horft til þeirra ábendinga sem þar komu fram.
Þjónustumiðstöð Fjallabyggðar er staðsett á Siglufirði og lítið útibú í Ólafsfirði. Þjónustumiðstöðin
sinnir verkefnum veitustofnunar, snjómokstri, viðhaldi gatna, viðhaldi stofnana og
umhverfisverkefnum. Starfsmenn sinna verkefnum í báðum bæjarkjörnum daglega og má gera ráð
fyrir að ferðir á milli bæjarkjarna séu að meðaltali 6-7 ferðir fram og tilbaka á hverjum degi.

Skólaþjónusta Fjallabyggðar

Gerðir eru verktakasamningar við sérfræðinga til að þjónusta leik- og grunnskóla Fjallabyggðar með
talmeinaþjónustu og sálfræðiþjónustu. Þessi þjónusta er keypt frá Akureyri. Búast má við að þessi
þjónusta verði kostnaðarsamari sem því nemur ef sett verða á veggjöld. Til og frá Akureyri þarf að
keyra í gegnum Múlagöng og Héðinsfjarðargöng.

Grunnskóli Fjallabyggðar

Grunnskóli Fjallabyggðar er ein stofnun með tvær starfsstöðvar, á Siglufirði og í Ólafsfirði.
Skólarúta keyrir nemendum Grunnskóla Fjallabyggðar á milli byggðakjarna daglega, 180 daga á ári, 12
ferðir á dag (6 ferðir í hvora átt). Ef veggjald er sett á Héðinsfjarðargöng yrði það mikill
aukakostnaður sem legðist á þennan akstur.
Að auki vinnur hluti starfsfólk Grunnskóla Fjallabyggðar á báðum starfsstöðvum skólans, Siglufirði og
Ólafsfirði, og fer því í gegnum Héðinsfjarðargöng á vinnutíma, oft daglega.

Leikskóli Fjallabyggðar

Leikskóli Fjallabyggðar er ein stofnun með tvær starfsstöðvar, á Siglufirði og í Ólafsfirði.
Hluti starfsfólks Leikskóla Fjallabyggðar starfar í báðum starfsstöðvum skólans, Siglufirði og Ólafsfirði,
og fer því í gegnum Héðinsfjarðargöng á vinnutíma, oft daglega. Samstarf er milli elsta árgangs
leikskólans á milli starfsstöðva og fer skólarúta með nemendur leikskólans á milli þegar þess þarf, ca
20 sinnum yfir vetur, gegnum Héðinsfjarðargöng.
Félagsmiðstöðin Neon

Ein Félagsmiðstöð er í Fjallabyggð og er hún er staðsett á Siglufirði. Unglingum er því keyrt frá
Ólafsfirði til Siglufjarðar, gegnum Héðinsfjarðargöng 2-3 sinnum í viku yfir starfstíma
félagsmiðstöðvarinnar. Skólarútan er notuð í aksturinn og hún er staðsett á Siglufirði. Hver opnun
félagsmiðstöðvarinnar þýðir því fjórar ferðir í gegnum Héðinsfjarðargöng, 8-12 ferðir vikulega.
Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar
Íþróttamiðstöð er ein stofnun með tvær starfsstöðvar, á Siglufirði og í Ólafsfirði.
Hluti starfsfólks íþróttamiðstöðvar starfar í báðum starfsstöðvum, Siglufirði og Ólafsfirði, og fer því í
gegnum Héðinsfjarðargöng á vinnutíma, oft daglega.

Frístundaakstur: Íþróttastarf barna og unglinga

Íþróttafélag í Fjallabyggð annast íþróttastarf fyrir börn og unglinga í öllu sveitarfélaginu. Börn og
unglingar fara því á milli byggðarkjarna á íþróttaæfingar og nýta til þess skólarútuna sem yfir
sumartímann sinnir frístundaakstri.
Frístundaakstri er sinnt í júní – ágúst þegar grunnskólastarf liggur niðri. Eknar eru 10 ferðir á hverjum
virkum degi gegnum Héðinsfjarðargöng (5 ferðir í hvora átt). Auk þess fara þjálfarar og bílar á vegum
íþróttafélaga sjálfra svo og foreldrar oft daglega gegnum Héðinsfjarðargögn tengt íþróttaæfingum og
íþróttakeppnum barna og unglinga.

Markaðs- og menningarmál

Mikil áhersla lögð á samvinnu á milli aðila í menningar- og ferðaþjónustu innan Fjallabyggðar.
Menningarhúsið Tjarnarborg er í Ólafsfirði og það er nýtt af menningaraðilum og íbúum beggja vegna
Héðinsfjarðargangna.

Bókasafn Fjallabyggðar

Er ein stofnun með tvær starfsstöðvar, á Siglufirði og í Ólafsfirði. Hluti starfsfólks bókasafns starfar í
báðum starfsstöðvum, Siglufirði og Ólafsfirði, og fer því í gegnum Héðinsfjarðargöng á vinnutíma, oft í
viku.
Aðrar stofnanir Fjallabyggðar með starfsstöðvar og starf báðum megin Héðinsfjarðargangna. Fjallabyggðarhafnir, Þjónustumiðstöð, Bæjarskrifstofa/stjórnsýsla, Félagþjónusta/barnavernd og Slökkvilið Fjallabyggðar

Betri undirbúningur og faglegri vinnubrögð
Bæjarstjórn Fjallabyggðar hvetur innviðaráðherra til að viðhafa faglegri vinnubrögð, betri undirbúning
og meiri samvinnu við breiðari hóp hagsmunaaðila áður en farið er af stað með lagasetningu sem
getur leitt til skaðlegra áhrifa fyrir ýmsar byggðir landsins