Eftirfarandi erindi hefur Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sent til stjórnvalda vegna draga að frumvarpi til laga um sýslumann.

Efni: Umsögn um mál nr. 122/ 2022 frumvarp til laga um sýslumann
Á samráðsgátt stjórnvalda hefur verið kynnt til umsagnar drög að frumvarpi til laga um sýslumann.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur yfirfarið drögin að frumvarpinu og hvetur ráðherra eindregið til að nýta þau tækifæri sem gefast til að bæta þjónustu við almenning, efla starfstöðvar sýslumanna á
landsbyggðinni og skjóta þar með styrkari stoðum undir blómlega byggð í landinu öllu. Bæjarstjórn vill þó koma á framfæri efasemdum um fækkun sýslumannsembætta úr níu í eitt og hvetja til
skoðunar á möguleika þess að hafa að lágmarki eitt embætti í hverjum landsfjórðungi.

Markmið frumvarpsins um að bæta þjónustu er lofsvert sem og markmið um að efla núverandi starfsemi og styrkja starfstöðvar sýslumanna sem þjónusta almenning um land allt. Í ljósi þess að
starfsemi sýslumanna hefur komið vel út í þjónustukönnunum undanfarin ár, er þó mikilvægt að kveðið verði nánar á um í frumvarpinu í hverju bætt þjónusta eigi að felast svo og hvernig tryggja
megi að hún verði jafn aðgengileg og skilvirk fyrir íbúa og verið hefur.

Í frumvarpsdrögunum er að finna jákvæðar áherslur sem varða þau fjölmörgu tækifæri sem felast í stafrænni þróun sem auðveldar einstaklingum að nýta þjónustuna sem og staðsetningu starfa óháð staðsetningu höfuðstöðva eða ráðuneytis. Hafa ber þó í huga að stafrænni þjónustu er ætlað að vera viðbót við þá mannlegu þjónustu sem veitt er nú þegar á hverri starfsstöð. Verkefni sýslumanna eru mannleg í eðli sínu og snerta oft einstaklinga á þeirra viðkvæmustu stundum í lífinu, sbr. fjölskyldumál og dánarbúsmál. Drögin fela í sér óþarflega víðtækt framsal valds til ráðherra. Það er sett í hendur ráðherra að ákveða með reglugerð hvaða þjónustuframboð verði á hverri starfsstöð.

Réttra væri að skilgreina í lögum hvaða ákveðna lágmarksþjónusta verði veitt á hverri starfsstöð, t.a.m. að þjónusta í sifjamálum, dánarbúum, TR, lögbókanda og lögráðamálum verði veitt á öllum
starfsstöðvum, og að ekki verði um þjónustuskerðingu að ræða fyrir íbúa.

Mikil og fjölbreytt þekking er til staðar hjá löglærðum fulltrúum og starfsfólki starfsstöðva embætta sýslumanna. Með sérhæfðri þjónustu á landsvísu og staðbundinni þjónustu í heimabyggð er hætta á að þessi mikla þekking og tengsl við samfélagið fari forgörðum og ákveðinn spekileki eigi sér stað. Minnt er á að um árabil hefur skrifstofa sýslumanns á Siglufirði með góðum árangri annast sérstök verkefni fyrir dómsmálaráðuneytið og þar hefur orðið til verðmæt sérþekking.

Uppbygging miðlægðrar og sérhæfðrar framkvæmdar verkefna á landsvísu má ekki verða til þess að hin fjölbreytta þjónusta sýslumanna í heimabyggð fari forgörðum en það er því miður hætta á því eins og frumvarpsdrögin liggja fyrir. Ekkert fjármagn liggur fyrir eða hefur verið eyrnamerkt hinu fyrirhugaða nýja embætti sýslumanns og því erfitt að sjá hvernig hvaða þjónusta verður tryggð á hverri starfsstöð og nauðsynlegan fjölda starfsmanna.