Ávarp markaðsstjóra Primex á Nýsköpunarþingi

Sigríður Vigfúsdóttir markaðsstjóri Primex flutti eftirfarandi ávarp við móttöku Nýsköpunaraverðlauna 2012 þann 18. apríl.

“Góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að mæta hér fyrir hönd Primex og taka við Nýsköpunarverðlaunum ársins 2012.

Það þarf ekki að segja ykkur sem hér eruð stödd, að það er langur vegur frá því hugmynd að fyrirtækinu fæðist, þar til við erum komin á þann stað sem við erum nú, og erum talin verðug þess að fá þá viðurkenningu sem við nú erum  að hljóta.

Á þeirri leið hafa margir lagt hönd á plóg.

Fyrst vil ég nefna okkar góða starfsfólk. En Primex er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa öflugan og samhentan hóp starfsmanna, sem hefur verið áhugasamur og virkur í þróun á okkar framleiðsluvörum.

Jákvæð viðhorf og þátttaka starfsfólks skiptir miklu í öllu þróunarstarfi og uppbyggingu á sprotafyrirtæki eins og Primex.

Þá hefur Nýsköpunarsjóður verið einn stærsti hluthafi í fyrirtækinu um árabil og veitt því margvíslegan stuðning.

Við höfum fengið þróunarstyrki og ráðgjöf frá Nýsköpunarmiðstöð, Íslandsstofu, Byggðastofnun og Rannís. Jákvæð viðhorf og góð ráð þessara aðila eru okkur og öðrum fyrirtækjum í vöruþróunarferli gríðarlega mikilvæg.

Það mikilvægi felst ekki eingöngu í þeim fjármunum sem lagðir eru til þróunarstarfsins sjálfs. Það er hvatningin sem þeim fylgir sem skiptir svo miklu máli.

Þá eru Nýsköpunarverðlaunin okkur mikilvæg staðfesting á því að við séum á réttri leið, jafnframt því sem þau munu án efa nýtast okkur í áframhaldandi sókn á mörkuðum erlendis.

Ég held að ég tali fyrir munn flestra sem hafa komið að nýsköpun á Íslandi þegar ég segi að stöðuleiki í starfsumhverfi fyrirtækja skiptir sköpum, þegar við erum komin inn á verðmæta markaði erlendis.

Forsenda þess að eiga viðskipti við stórfyritæki á borð við Christian Dior, L´oréal eða tannkremsrisan Colgate, er að hægt sé að uppfylla skilyrði um stöðugleika og sjálfbærni.

Hjá Primex hefur yfir einum milljarði króna, verið varið í uppbyggingu og nýsköpun. Auk Nýsköpunarsjóðs eru sjávarútvegsfyrirtækin Rammi, Samherji og Síldarvinnslan í hópi helstu hluthafa, en þau eiga yfir 70% hlutafjárs Primex.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð nýsköpunar sem tengist sjávarútvegi gangi áform stjórnvalda um ofurskattlagningu á greinina eftir.

Að lokum vilja ég segja “Lengi lifi nýsköpun á Íslandi” – takk fyrir”.

Texti: Rammi.is