Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) um að koma á fót aðstöðu með allt að fjórum rýmum til almennrar endurhæfingar við starfsstöð stofnunarinnar á Sauðárkróki. Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN segir þetta framfaraskref sem styrki starfsemina á Sauðárkróki og geri kleift að bjóða fleirum en ella endurhæfingu í nærumhverfi sínu.

Gert er ráð fyrir að endurhæfingin verði einkum sniðin að þörfum eldra fólks sem þarf á endurhæfingu að halda t.d. í kjölfar gerviliðaaðgerða, vegna slitgigtar eða af viðlíka ástæðum þar sem sjúkraþjálfun og almenn hjúkrun getur stuðlað að bata eða bættri líðan og auknum lífsgæðum.

Við heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki er góð endurhæfingaraðstaða með vel búnum æfingasal og endurhæfingarsundlaug og stofnunin er ágætlega mönnuð sjúkraþjálfurum. Með því að nýta þessa aðstöðu skapast tækifæri til að veita endurhæfingu einstaklingum sem að óbreyttu hafa litla möguleika á að fá endurhæfingu eins og hér um ræðir.

Heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við Heilbrigðisstofnun Norðurlands um rekstur endurhæfingarrýma eins og hér segir. Stefnt er að því að hefja rekstur rýmanna næsta haust og er fjármagn til rekstrarins tryggt frá þeim tíma.

Heimild: stjornarrad.is