Fjármála- og efnahagsráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið óska eftir markaðsaðilum til samtals um mögulega aðkomu einkaaðila að uppbyggingu fasteigna og innviða við Jökulsárlón.

Til skoðunar er að bjóða út uppbyggingu og rekstur innviða ásamt mögulegu rekstrar- eða sérleyfi fyrir ákveðinn rekstur á svæðinu. Leitað er til markaðsaðila til þess að kanna hvort áhugi sé fyrir verkefninu.

Árið 2019 var nýtt deiliskipulag samþykkt vegna breyttra forsendna sem snúa að svæðinu. Deiliskipulag gerir ráð fyrir uppbyggingu á allt að 5.130 fermetra aðstöðu á svæðinu. Gert er ráð fyrir að stærstur hluti aðstöðunnar verði uppbygging á aðstöðu fyrir veitingar, verslun, afþreyingu, ásamt útleigurýmum fyrir rekstraraðila ferðaþjónustu.

Jökulsárlón er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Á árinu 2018 voru heimsóknir 838 þúsund og 817 þúsund á árinu 2019. Áætlanir gera ráð fyrir að heimsóknarfjöldi verði tæplega 1,0 milljón á árinu 2023. Jökulsárlón er hluti af jörðinni Fell sem íslenska ríkið keypti árið 2017 en sama ár sameinaðist svæðið Vatnajökulsþjóðgarði og var svæðið þar með friðlýst.

Óskað er eftir að svör berist í gegnum Tendsign kerfið eigi síðar en 17. ágúst 2023.

Ljósmynd: Héðinsfjörður.is /Magnús R. Magnússon