Mjög áhugaverð könnun hefur verið birt á heimasíðu Grunnskóla Fjallabyggðar, svonefnd eineltiskönnun í 5.-10. bekk. Þar kemur í ljós að 8 börn segjast hafa lent í einelti, fimm stelpur og þrír strákar sem er 5,1% nemenda. Þá segjast sex nemendur líka illa í skólanum og tveir segja mjög illa.  Ein stelpa segist ekki eiga neinn góðan vin í skólanum og einn strákur segir það sama.  Aðeins fimm börn hafa sagt einhverjum frá, sem er alltof lítið.  Tvö börn hafa sagt umsjónarkennara sínum frá, eitt merkir við sagt frá einhverjum fullorðnum heima.

Enginn nemandi viðurkennir að hann hafi tekið þátt í að leggja nemanda í einelti. Níu nemendur svara: Það hefur bara einstaka sinnum gerst en það er ekki einelti. Ef aðrar spurningar eru skoðaðar má sjá nokkuð jafna dreifingu hvort það séu strákar eða stelpur sem áreita eða leggja í einelti, eða hvort það er hópur eða einn nemandi.

Algengasta eineltið er:

  • Gert er grín að mér, ég er uppnefndur á óþægilegan og meiðandi hátt.
  • Aðrir nemendur útiloka mig og halda mér fyrir utan félagahópinn.
  • Aðrir nemendur hafa dreift um mig rógi eða lygum.
  • Aðrir nemendur vilja ekki vera með mér svo ég er ein/einn í frímínútum.

Þrír nemendur hafa orðið fyrir einelti sem hefur staðið yfir í mörg ár og einn svarar að það hafi staðið yfir um eitt ár. Fram kemur í könnuninni að mikilvægt sé að finna öll þessi börn og vinna með þeirra mál. Hér verða foreldrar og umsjónarkennarar að vinna saman.

 Eineltisteymi starfar við Grunnskóla Fjallabyggðar sem fundar reglulega og vinnur eftir vísbendingum frá starfsfólki, foreldrum og nemendum.

Alla könnunina má lesa hér. Ráðleggingar til foreldra má lesa hér í bæklingi um einelti og hér.

20120831_124406 (Medium)

Heimild: fjallaskolar.is