Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, heimsótti Háskólann á Hólum í vikunni ásamt ráðuneytisstjóra og kynnti sér starfsemina. Mikil og ánægjuleg aukning á fjölda nemenda hefur orðið við háskólann, þá sérstaklega við fiskeldis- og fiskalíffræðideild, sem kallar á frekari uppbyggingu á aðstöðu fyrir það nám.

Ráðherra fundaði einnig með Eddu Matthíasdóttur, framkvæmdastjóra Háskólans á Hólum, og öðru forsvarsfólki skólans, um tækifæri sem gætu falist í samstarfi skólans við aðra háskóla á Íslandi og með hvaða hætti mætti styrkja starfsemi skólans í gegnum slíkt samstarf. Háskólinn á Hólum hefur sýnt ríkan áhuga á auknu samstarfi háskóla í takt við áherslur ráðherra og er t.a.m. aðili að átta samstarfsverkefnum háskólanna sem kynntar voru í upphafi árs. Meðal þessara verkefna er öflugt háskólanám í þágu fiskeldis sem Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Landbúnaðarháskóli Íslands standa að. Um er að ræða nám á grunn- og framhaldsstigi í eldi, ræktun og nýtingu sjávar- og vatnalífvera, samhliða samræmdum rannsóknum og rannsóknainnviðum sem stuðlar að forystuhlutverki Íslands í sjálfbæru lagareldi.