Akureyri vikublað birti nýlega opnuviðtal við Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur þingmann VG, en hún rekur einnig fyrirtæki í Ólafsfirði þar sem hún er búsett. Brot úr viðtalinu er birt með góðfúslegu leyfi Akureyri vikublaðs, sem birti viðtalið á dögunum.
Hvernig fer það saman með þingmennsku að búa í Fjallabyggð?
„Það er vissulega svolítið strembið, sérstaklega yfir háveturinn þegar allra veðra er von en ég reyni alla jafna að fljúga til vinnu á mánudagsmorgnum og heim á föstudögum ef ekki eru önnur þingleg störf sem sinna þarf í þessu stóra og víðfema kjördæmi eða í borginni. Áhugi minn á pólitíkinni er mikill og það sem dregur mig til starfanna sem skapa svo mikla fjarveru frá fjölskyldunni er baráttan fyrir betra samfélagi sem dregur úr misskiptingu en eykur jöfnuð. En eiginmaðurinn vinnur í Ólafsfirði og yngri dóttirin er í Menntaskólanum á Tröllaskaga svo það er augljóst að margt þarf að leysa í gegnum síma eða tölvusamskipti. En þegar manni þykir að jafnaði gaman í vinnunni eins og mér finnst, er fjarlægðin verkefni sem þarf að finna jákvæðan flöt á. Það er alltaf ósköp gott að koma heim, ég er ekki frá því að ástin og hlýjan hafi skerpst og tíminn heima sé vel nýttur með þeim feðginum hér.“
Hvað á að gera í sumar?
“Við hjónin rekum lítið fyrirtæki, Gistihús Jóa og Kaffi Klöru, og við erum svo heppin að eldri dóttir okkar hefur séð um reksturinn það sem af er sumri en ég fer á fullt í það núna og nýti stærstan hluta sumarleyfisins til þess. Svo mun ég sinna þingmannsskyldum mínum eins og ég frekast get, enda fátt mikilvægara en að hitta fólk og skiptast á skoðunum.”
Allt viðtalið má lesa á akureyri.net
Viðtalið tók Björn Þorláksson.