Ársreikningur Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2022 var tekinn til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 16. mars.
Rekstur sveitarfélagsins gekk vel á árinu 2022. Vaxandi verðbólga á árinu 2022 varð þó þess valdandi að nokkur frávik urðu á áætluðum tekjum og gjöldum ársins, eins og þau voru áætluð í fjárhagsáætlun sem var afgreidd í nóvember 2021.

Helstu niðurstöður:
Rekstrartekjur A- og B-hluta voru 1.400 millj. sem er um 4,6% umfram áætlun ársins.
Laun og launatengd gjöld voru 680,9 millj. sem er 4,6% umfram áætlun ársins sem gerði ráð fyrir 651,1 millj.
Launakostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum er 49,1% og lækkaði hlutfallið um 1,6% milli ára. Annar rekstrarkostnaður var 526,1 millj. sem er um 6,3% umfram áætlun. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 146,5 millj. en áætlun gerði ráð fyrir 145,4 millj. sem er 0,7% frá áætlun.

Lang stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins er vegna fræðslumála og var á árinu 2022 708,7 millj. eða 56,2% af skatttekjum, áætlun ársins gerði ráð fyrir 678,1 millj.
Á árinu 2021 voru útgjöld vegna fræðslumála 58,8% af skatttekjum.

Langtímaskuldir A-hluta eru engar. Langtímaskuldir B-hluta eru 61,3 millj. og eru það eingöngu lán vegna leiguíbúða. Skuldaviðmið sveitarfélagsins samkv. reglugerð er 0%, leyfilegt hámark er 150%.
Veltufé frá rekstri var 192,3 millj. eða 13,3%. Nettó fjárfestingar ársins voru 155,1 millj. Handbært fé í árslok var 332,1 millj. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 1.428 millj.
Staða sveitarfélagsins er sterk, reksturinn er í góðu jafnvægi og sveitarfélagið vel í stakk búið til að takast á við þau stóru verkefni sem eru hafið þ.e. bygging leikskóla og viðbygging við grunnskólann.