Árlegur fræðsludagur skólanna í Skagafirði

Árlegur fræðsludagur leik–, grunn-, og tónlistarskóla Skagafjarðar var haldinn áttunda sinn í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð í vikunni.  Á fræðsludegi koma saman allir starfsmenn skólanna sem eru um 200 manns. Markmiðið með deginum er að vera saman og kynna ýmis verkefni sem framundan eru í skólastarfinu. Að þessi sinni var sérfræðiþjónusta við skólana yfirfarin. Fjallað um nýútgefna lestrarstefnu og henni dreift til allra starfsmanna. Einnig var umfjöllun um svokallaðan Skólaspegil, staðfest sjálfsmat, sem er samstarfsverkefni fræðsluyfirvalda og skólanna í sveitarfélaginu sem farið verður af stað með í grunnskólunum þremur á þessu skólaári.

Elísa Guðnadóttir, sálfræðingur, fjallaði um streitu og álag í starfi og leiðir til lausna, ásamt því að vera með erindi um hagnýtar leiðir til þess að bæta hegðun og líðan leikskólabarna. Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi, hélt utan um kynningar á upplýsingatækni í grunnskólum ásamt samkennurum sínum. Starfsmenn tónlistarskólans hlýddu á tvo góða gesti, þær Helgu Sighvatsdóttur, aðstoðarskólastjóra við Tónlistarskóla Árnesinga sem fjallaði um þróun tónlistarskóla og Freyju Gunnlaugsdóttur aðstoðarskólastjóra við Tónlistarskóla Reykjavíkur sem kynnti tónlistarmenntaskóla.

Heimild: skagafjordur.is