Sjúkrahúsið á Akureyri fékk mjög góðar umsagnir frá alþjóðlega faggildingarfyrirtækinu Det Norske Veritas (DNV-GL), sem nýverið lauk ítarlegri úttekt á þremur starfsemisþáttum sjúkrahússins.

DNV er vottunaraðili alþjóðlegu vottunarinnar DNV GL Healthcare sem er gæðastaðall fyrir sjúkrahús ásamt ISO9001 sem er gæðastjórnunarstaðall. Fyrirtækið er eitt það öflugasta á sínu sviði í heiminum. Full úttekt á allri starfsemi SAk er gerð á þriggja ára fresti en þess á milli er úttekt á einstökum starfsemisþáttum sjúkrahússins.

Sjúkrahúsið á Akureyri hlaut fyrst DNV GL Healthcare vottun 2015 og ISO9001 vottun árið 2019, fyrst allra íslenskra heilbrigðisstofnana. ISO vottunin var endurnýjuð 2021 en næsta endurnýjun er á dagskrá 2024.

Gæðaúttektin nú beindist að þremur þáttum: Í fyrsta lagi að klínískum þáttum, í öðru lagi stjórnkerfi sjúkrahússins og upplýsingastjórn og loks að húsnæðinu sjálfu. Engin alvarleg athugasemd var gerð en 7 minni háttar athugasemdir komu fram.