Arctic Heli Skiing tilnefnt til verðlauna
Fyrirtækið Arctic Heli Skiing í Dalvíkurbyggð hefur verið tilnefnt til World Ski Awards verðlaunanna. Tilgangurinn með þeim er að viðurkenna árangur framúrskarandi fyrirtækja í skíðamennsku og hefur norðlenska fyrirtækið verið tilnefnt sem besta þyrluskíðafyrirtæki heims. Kosið verður í netkosningu og eru veitt verðlaun í nokkrum flokkum. Allir sem vilja geta tekið þátt í kosningunni, en henni lýkur þann 22. september. Vert er að athuga að starfsmenn fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu eða hjá fyrirtækjum sem tengjast skíðamennsku geta skráð sig sérstaklega sem „industry voters.“ Atkvæði þeirra vega þyngra en önnur atkvæði. Tilkynnt verður um sigurvegara á þriggja daga hátíð World Ski Award í nóvember.
Arctic Heli Skiing leggur mikla áherslu á fagmennsku í sinni starfsemi og segir eigandi fyrirtækisins, Jökull Bergmann, að þetta sé mikilvægur áfangi fyrir skíðamennsku á Íslandi og Norðurlandi sérstaklega. „Þetta er afrakstur áratuga vinnu við að markaðssetja Norðurland sem áfangastað fyrir skíðafólk. Ég er gríðarlega stoltur af þessu fyrir hönd okkar hér á Tröllaskaganum, og af því að svæðið sé komið á skíðaheimskortið,“ segir Jökull.
- Hægt er að kjósa hér: http://worldskiawards.com/vote/Arctic-Heli-Skiing-2017
- Færsla á vef Arctic Heli Skiing um tilnefninguna: http://www.arcticheliskiing.com/en/arctic-heli-skiing/blog/2017-world-ski-awards
- Hér má lesa nánar um World Ski Awards: http://worldskiawards.com/about