Ályktun Aðalfundar Golfklúbbs Ólafsfjarðar

“Aðalfundur Golfklúbbs Ólafsfjarðar haldinn í Menningarhúsinu Tjarnarborg 29. desember 2014. Golfklúbbur Ólafsfjarðar harmar að bæjarstjórn Fjallabyggðar hyggist einungis ætla að setja 1.600.000,- kr. til rekstrar Skeggjabrekkuvallar í Ólafsfirði á árinu 2015. Ljóst er að rekstur golfvallarins árið 2015 mun aldrei kosta undir fjórum milljónum og mun framlag bæjarsjóðs þar af leiðandi ekki einu sinni standa undir helmingi rekstrarkostnaðar. Þá er ekki tekið með í reikninginn það fjármagn sem þarf til endurnýjunar véla. Fundurinn mótmælir þessu harðlega og væntir þess að bæjarstjórnin endurskoði ákvörðun sína og sýni þann metnað að vilja styðja við og efla golfíþróttina í bæjarfélaginu.

Við viljum árétta að árið 2011 samþykkti bæjarstjórn Fjallabyggðar að golfvöllurinn, Skeggjabrekkuvöllur í Ólafsfirði yrði golfvöllur Fjallabyggðar. Golfvöllurinn gegnir miklu hlutverki í því að draga ferðamenn að bænum, en margir kylfingar sóttu hann heim síðast liðið sumar eins og undanfarin ár. Einnig viljum við benda á að framlög bæjarins til golfvallarins hafa staðið í stað frá árinu 2008, en framlög til annarra íþróttamannvirkja hafa hækkað.”