Alvarleg fjarhagsstaða Verkmenntaskólans á Akureyri

Á undanförnum misserum og árum hefur þrengt mjög að rekstri Verkmenntaskólans á Akureyri vegna þess að framlög ríkisins til skólans hafa ekki staðið undir rekstrinum. Og nú er svo komið að ríkið greiðir ekki rekstrarfé til skólans fyrr en uppsafnaður halli skólans síðustu tvö ár hefur verið endurgreiddur ríkissjóði. Þetta gerir það að verkum að skólinn hefur lítið eða ekki getað greitt fyrir nauðsynleg aðföng til skólans, reikningar hrannast upp og á þá eru komnir dráttarvextir. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari  VMA segir að þessi staða sé algjörlega fordæmalaus í sögu skólans. En VMA er fjarri því að vera eini framhaldsskóli landsins í sambærilegri stöðu þessa dagana. Þetta kemur fram á vef vma.is, og má lesa alla greinina þar.

„Staðan er sú að um áramót var Verkmenntaskólinn í skuld við ríkissjóð og það hefur gerst áður, en oftar en ekki höfum við verið á núllinu eða rétt yfir núllinu. Það hefur komið fyrir áður að okkur hafi vantað rekstrarfé og við höfum þá getað óskað eftir fé frá ráðuneytinu til þess að brúa bilið. En í byrjun febrúar fengum við þau svör að vegna þess að skólinn hafi verið í skuld við ríkissjóð um áramót fengjum við ekki framlög fyrr en skuldin við ríkissjóð væri gerð upp. Um er að ræða uppsafnaðan halla frá bæði árinu 2014 og 2015. Við höfum fengið þau svör að við verðum að borga ríkissjóði til baka uppsafnaðan halla skólans áður en við getum greitt þá reikninga sem hér safnast upp vegna daglegs reksturs skólans,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, um fjárhagsstöðu skólans þessa dagana.

Yfir 90% í laun og rekstur húsnæðis
Það segir sína sögu að yfir 90% af rekstri skólans eru laun og rekstur húsnæðis og það segir Sigríður Huld að sé í raun grunnur þess hvernig rekstrarstaða skólans er. „Þau tæplega 10% sem út af standa eru allir aðrir rekstrarliðir. Nemendur greiða efnisgjöld – að hámarki 25 þúsund krónur á nemanda á önn og þessi upphæð hefur verið óbreytt í hartnær áratug. Á sama tíma hafa verið miklar kostnaðarhækkanir, sem kunnugt er. Það er á ábyrgð okkar stjórnenda skólanna að reka þá innan fjárheimilda, en vandamálið er að við erum ekki að fá það fjármagn sem við þurfum til þess að reka skólana í algjöru lágmarki. Það er á ábyrgð stjórnvalda að fjármagna skólana. Skóli eins og VMA, sem lengstaf hefur verið í góðum rekstri, er nú kominn í mínus vegna þess að ríkisframlög til hans hafa ekki fylgt auknum útgjöldum.

Heimild: vma.is