A! Gjörningahátíð fer fram á Akureyri 10.-12. október næstkomandi. A! er þriggja daga alþjóðleg gjörningahátíð sem haldin er árlega og nú í tíunda sinn. Ókeypis er á alla viðburði. Hátíðin er sú eina sinnar tegundar á Íslandi þar sem einungis er um gjörningalist að ræða úr öllum listgreinum.

Dómnefnd valdi verk frá hópi listafólks og eru gjörningar af öllum toga á dagskránni. Þátttakendur eru ungir og upprennandi listamenn, ásamt reyndum og vel þekktum gjörningalistamönnum.

Þátttakendur í ár eru: Magnús Helgason, Hekla Björt Helgadóttir, Fríða Karlsdóttir, Dustin Scott Harvey, Ashima Prakesh og Éva Berki, Véný Skúladóttir, Christalena Hughmanick, Clare Almere, Henrik Koppen, Kristján Helgason, Guðmundur Steinn Gunnarsson og Birgir Sigurðsson, Snæfríður Sól Gunnarsdóttir, Kraftverk (Anna Kolfinna Kuran, Elín Signý Weywadt Ragnarsdóttir, Elísabet Birta Sveinsdóttir, Gígja Jónsdóttir og Guðrún Selma Sigurjónsdóttir), Heather Sincavage og Sarah Hammeken.

Gjörningahátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Vídeólistahátíðarinnar Heim, Einkasafnsins, Gilfélagsins, Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri.