Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að íbúakosning um fræðslustefnu Fjallabyggðar fari fram þann 14. apríl 2018.  Íbúakosningin lýtur sveitarstjórnarlögum nr.138/2011 og verður staðarkosning í tveimur kjördeildum,
Ráðhúsi Fjallabyggðar og Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Spurt verður:

  1. Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Valkostir:

  1. Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.
  2. Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03. 2009 taki gildi á ný.

 

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur hvatt íbúa til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og kynna sér fræðslustefnuna og skólastarfið vel. Hægt er að kynna sér fræðslustefnuna á heimasíðu Fjallabyggðar auk þess sem þar er að finna fréttir af skólastarfi allra skólastiga.

Verði ákveðið að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar verður horfið aftur til fyrri fræðslustefnu og fyrra kennslufyrirkomulags. Með því eru forsendur fyrir samþættu skóla- og frístundastarfi á yngsta skólastigi brostnar og Frístund mun leggjast af. Að sama skapi verður samstarfi grunnskólans við Tónlistarskólann á Tröllaskaga, Menntaskólann á Tröllaskaga og íþróttafélög í Fjallabyggð í þeirri mynd sem verið hefur á núverandi skólaári sjálfhætt.