Allt dekkjakurl á íþróttavöllum verði horfið árið 2026

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gefið út áætlun um að kurluðu dekkjagúmmíi verði skipt út fyrir hættuminni efni á leik- og íþróttavöllum.

Samkvæmt ályktun Alþingis frá 2. júní 2016 um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum var umhverfis- og auðlindaráðherra falið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, að móta áætlun sem miðaði að því að kurluðu dekkjagúmmíi yrði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það væri að finna. Vinnuhópur sem skipaður var í kjölfarið skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að áætlun í desember 2016.

Útgefin áætlun er í samræmi við tillögur skipaðs vinnuhóps og gerir ráð fyrir því að fyrir árslok 2019 verði búið að skipta kurluðu dekkjagúmmíi út fyrir hættuminni efni á 60% allra leik- og íþróttavalla þar sem laust kurl kemst í beina snertingu við iðkendur, 80% leik- og íþróttavalla fyrir árslok 2022 og að verkinu verði lokið að fullu fyrir árslok 2026.  Til að fylgjast með framvindu mála mun Umhverfisstofnun meta innleiðingu og árangur áætlunarinnar í lok hvers tímabils og upplýsa umhverfis- og auðlindaráðuneytið um stöðu mála.