Úrval áfangastaða sem hægt er að heimsækja með beinu flugi frá Akureyrarflugvelli hefur aldrei verið meira en nú. Alls eru áfangastaðirnir sex talsins, sem flogið er til á árinu 2023 auk áfangastaða sem ferðaskrifstofur bjóða sérstaklega upp á í pakkaferðum.

 

Hægt er að bóka flug til Dusseldorf, Tenerife, Alicante, Kaupmannahafnar, Frankfurt og Zurich með flugfélögunum Niceair, Condor og Edelweiss. Hægt er að bóka ferðir á heimasíðu flugfélaganna en einnig er hægt að bóka í gegnum þjónustur á borð við Dohop og Skyscanner. Auk þessa áætlunarferða er hægt að bóka ferðir til Hollands hjá Verdi ferðaskrifstofu með Transavia, sem flýgur fyrir hollensku ferðaskrifstofuna Voigt Travel með ferðamenn til Akureyrar. Verdi býður einnig upp á vorferðir til Póllands í samstarfi við Niceair.

 

Ljóst er að aukið millilandaflug um Akureyrarflugvöll bætir lífsgæði íbúa á Norður- og Austurlandi. Aukinn fjöldi ferðamanna ýtir undir þróun og velgengni norðlenskra ferðaþjónustufyrirtækja, sem stuðlar að hagsæld á svæðinu. Frábær tækifæri skapast fyrir heimamenn til ferðalaga, hvort sem er beint til þeirra áfangastaða sem í boði eru eða með tengiflugi um fjóra flugvelli sem bjóða upp á mjög breitt úrval áfangastaða.

 

„Heimafólk ætti hiklaust að nýta sér þá möguleika sem þessi millilandaflug skapa. Markmið okkar hjá Markaðsstofu Norðurlands er að hvetja erlend flugfélög til að koma hingað með ferðamenn og hin hliðin á þeim pening er það úrval sem býðst af beinu millilandaflugi frá Akureyri. Flugvellir eins og í Kaupmannahöfn, Dusseldorf, Frankfurt og Zurich bjóða nánast endalausa möguleika á tengiflugi, þaðan er hægt að komast áfram til annarra heimsálfa á þægilegan og fljótlegan hátt. Svo ekki sé nú minnst á þægindin sem felast í því þegar komið er heim aftur, hversu fljótt maður getur verið kominn aftur inn fyrir dyrnar heima hjá sér. Vonandi sjá sem flest tækifærin og nýta sér þessi flug,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Smelltu hér til að skoða bókunarvél Condor.

Smelltu hér til að skoða bókunarvél Niceair.

Smelltu hér til að skoða bókunarvél Edelweiss.

Smelltu hér til að skoða ferðir hjá Verdi ferðaskrifstofu.

Texti og mynd: Aðsend fréttatilkynning.