Alcoa hætt við byggingu álvers á Bakka

Alcoa hefur hætt við byggingu álvers á Bakka þar sem ekki bjóðist næg orka til verkefnissins. Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings, segir að 6-7 smærri fyrirtæki þurfi til að koma til móts við Alcoa.

Gunnlaugur segist sleginn yfir því að þetta sé staðan. Vonir hafi staðið til að verkefnið færi af stað. Talið hafi verið að allar forsendur væru til þess, næg orka og mikill vilji heimamanna til þess að byggja upp með þessum hætti.

Alcoa segir að ákvörðunin sé tekin vegna þess að fyrirtækið fái ekki nema um helming þeirrar orku sem það þurfi til verkefnisins. Þá sé það ekki á samkeppnishæfu verði. Aðspurður hvort sveitarfélagið og Landsvirkjun séu á sama máli með þá orku sem um ræðir segir Gunnlaugur að hann telji að það sé mikið meiri orka á svæðinu en 200 megavött það hafi komið fram í þeirri vinnu sem hafi verið unnin á undanförnum árum. Búið sé að setja 525 megavött í gegnum umhverfismat og því komi á óvart að einungis séu 200 megavött til ráðstöfunar á svæðinu næst 8 til 9 árin. Þessi niðurstaða hafi komið á óvart.

Gunnlaugur segir að nú verði að snúa sér að PCC sem sé nýlega búið að gera að skrifa undir viljayfirlýsingu með þeim. Vonir standi til að það sé fyrsta skrefið í uppbyggingu fyrir fleiri og smærri fyrirtæki þannig að nýta megi orkuna í Þingeyjarsýslum til atvinnuupbygginar.

Rúv.is greinir frá.