Albatros kom til Siglufjarðar

Skemmtiferðaskipið Albatros kom 18. júní síðastliðinn, en skipið var við akkeri í Siglufirði. Notast var við léttbáta til að koma farþegum í land. Skipið kom mjög snemma og stoppaði ekki nema í 2 tíma áður en það fór til Akureyrar. Um 200 manns komu í land þennan morguninn kl. 7:00 og 50 af þeim fóru á Síldarminjasafnið og fengu leiðsögn um safnhúsin og síldarsmakk og einnig að sjá síldarsöltun og bryggjuball. Þessir farþegar fóru svo með rútu til Akureyrar þar sem þau fóru um borð aftur í skipið. Aðrir farþegar fóru strax um morguninn með rútum til að skoða Dettifoss og Mývatn og fóru svo til Akureyrar áður en skipið lagði þar úr höfn.

Áætlað er að skipið komi aftur til Siglufjarðar á næsta ári og mun þá skipið stoppa hluta úr degi til að farþegar geti betur notið afþreyingarinnar í Fjallabyggð. Skipið mun þó koma aftur til Íslands í ágúst og mun meðal annars koma við á Akureyri. Skipið siglir þessa dagana um Noregsstrendur.

Skipið er byggt árið 1973 og hefur heitið ýmsum nöfnum og tekið miklum breytingum. Skipið hét upphaflega Royal Viking Sea og svo Royal Odyssey, þá Norwegian Star og Crown áður en það fékk nafnið Albatros árið 2004. Skipið tekur nú 812 farþega en var upphaflega gert fyrir 536 farþega. Þá var skip lengt úr 177,7 metrum í 205,4 metra.