Árið 2012 eru 150 ár frá því Akureyrarbær hlaut kaupstaðarréttindi. Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja í hátíðarhöldunum og fegrun bæjarins.
Það verða viðburðir stórir sem smáir allt árið um kring en segja má að aðalhátíðarhöldin hefjist föstudaginn 24. ágúst og verður áherslan þá helgi lögð á unga fólkið. Sjálfur afmælisdagurinn er 29. ágúst og verða m.a. fjörug og hæfileikarík leik- og grunnskólabörn áberandi þann dag. Aðalhátíðarhöldin fara svo fram á sjálfri Akureyrarvöku helgina 31. ágúst – 2. september og verður mikill glaumur og gleði, þar sem bæjarbúar og gestir hans víða að komnir taka þátt í að fagna með afmælisbarninu.
En í febrúar verður m.a. á dagskránni:
- Fyrsti þátturinn af tíu sem sjónvarpsstöðin og framleiðslufyrirtækið N4 gerir um afmælisbarnið Akureyri fer í loftið í 28. febrúar og bera þættirnir heitið “Ég sé Akureyri”. Þætttirnir verða á dagskrá síðasta þriðjudag frá febrúar til október og samantektarþáttur í desember. Fyrsti þátturinn af “Ég sé Akureyri” er helgaður atvinnulífinu.
- Einleikstónleikar Víkingar Heiðars í menningarhúsinu Hofi. Á dagskránni eru m.a. sex píanólög eftir akureyska tónskáldið Jón Hlöðver Áskelsson.
- Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumflytur í menningarhúsinu Hofi píanókonsert eftir Jón Ásgeirsson með einleikaranum Peter Máté en Jón samdi konsertinn sérstaklega fyrir hann. Á efnisskránni verða einnig Sinfónía nr. 7 eftir Beethoven og forleikurinn Fingalshellir eftir Mendelssohn.
- Vetrarhátíðin Éljagangur stendur yfir 9. – 12. febrúar. Fjölbreytt dagskrá fyrir útivistarfólk á öllum aldri, skíðað í Hlíðarfjalli, vélsleða- og troðaraferðir, vasaljósganga, reiðkeppni, snjósleðaspyrna, brettakeppni- og sýning, ísskúlptúrar, fjallaskíðanámskeið, snjósleðaferðir með aftanívagni, Vetrarsportsýningin í Boganum, Íslandsmeistaramótið í íscross, Íslandsgangan 2012 í Hlíðarfjalli, snjóþrúguganga og fleira skemmtilegt sem færir roða í kinnar.
- Snjókarlinn rís á Ráðhústorgi á Éljagangi – hvaða nafn skyldi hann nú fá?
- Frönsk kvikmyndahátíð í Borgarbíó 18. – 20. febrúar.
- Opnun í menningarhúsinu Hofi á verkum Jónasar Viðars – 50 ára afmælissýning.
- Hljómsveitin 200.000 naglbítar mæta galvaskir í menningarhúsið Hof með öll sín bestu lög og kynna nýtt efni.
- Bergþórutónleikar í menningarhúsinu Hofi – valið efni úr söngvasafni Bergþóru Árnadóttur flutt af valinkunnum tónlistarmönnum.
- Öskudagurinn er dagur sem Akureyringum er annt um. Hvaða búningi ætlar þú að klæðast þennan dag?
- Bíó Paradís í samvinnu við KvikYndi (Kvikmyndaklúbb Akureyrar) og menningarhúsið Hof sýna sígildar myndir á breiðtjaldi í Hofi. Kvikmyndin Kviðdómur eða 12 angry man frá árinu 1957 verður sýnd 22. febrúar.
- Ari Eldjárn verður með uppistand í menningarhúsinu Hofi og er þetta frumraun hans á sviði Hofs fimmtudaginn 23. febrúar.
- Dvalar – og hjúkrunarheimilið Hlíð á stórafmæli á þessu ári – heimilið var vígt á 100 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar 29. ágúst 1962 og er því 50 ára á þessu ári. Í tilefni af afmælisárinu ætla heimilin að brydda upp á þeirri nýbreytni að vera með málstofa síðasta mánudag hvers mánaðar kl. 12:15 – 12:45 í samkomusalnum í Hlíð. Fengnir verða fyrirlesarar úr ólíkum áttum til þess að fjalla um athyglisverð málefni sem varða efri ár. Allir eru velkomnir – innan öldrunarheimilanna sem utan.
Götukort af Akureyri er hér.