Akureyrarvaka, afmælishátíð Akureyrar, fer fram síðustu helgina í ágúst, 30.ágúst til 1. september. Þemað þetta árið er fjölmenning en rúmlega sextíu þjóðerni byggja bæinn.  Akureyrarvaka er sett í Lystigarðinum á föstudagskvöldinu. Garðurinn er þá skrautlýstur og þykir mörgum rölt um garðinn í rökkurró hinn eini sanni hápunktur Akureyrarvöku.

Meðal dagskrárliða má nefna Retro Stefson karnival í Gilinu, þar sem hljómsveitin tekur á móti fjölbreyttum gestum, alþjóðlegt eldhús í Hofi, heimstónleika á Ráðhústorgi, suðræna og seiðandi Rökkurró í Lystigarðinum, vísindasetur í Rósenborg, tónleika á Akureyri Backpackers, Draugaslóð í Innbænum, nytja- og handverksmarkað, Tweed Ride hjólreiðar í klassískum klæðnaði, Mozartveislu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, útgáfutónleika Hjalta og Láru Sóleyjar í Hofi, fjölda sýninga í Listagilinu, ljósmyndasýningu í miðbænum og tónleika í Sundlaug Akureyrar.