Í gær komu fjögur skip til Akureyrar sem tengjast olíuleit á Drekasvæðinu. Það var rannsóknarskipið Nordic Explorer og þrjú þjónustuskip þess en skipið hefur verið við rannsóknir  á svæðinu suður af Jan-Mayen og inn á Drekasvæðið í íslensku lögsögunni. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Rúv.

Það er þörf á heilmikilli þjónustu við olíurannsóknarskipin og yfirleitt eru það minni þjónustuskip sem flytja aðföng á svæðið og hafa komið nokkrum sinnum til Akureyrar en í þetta skiptið kom móðurskipið sjálft til hafnar.

Einar Eydal, svæðisstjóri Eimskips á Norðurlandi sagði í viðtali við Rúv að olíurannsóknarskipin þurfa mikla þjónustu, bæði varðandi búnað, varahluti, viðgerðaþjónustu, olíu, kost og aðra þjónustu. Hann segir Akureyrarhöfn hafa orðið fyrir valinu sem þjónustuhöfn við leiðangurinn vegna þeirrar fjölbreyttu þjónustu sem þar sé að fá, viðgerðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og gistingu.

Einar býst við að þjónusta við leiðangra af þessu tagi eigi eftir að aukast og skipakomum að fjölga.

Draumurinn um að fá þessa þjónustu til Siglufjarðar virðist því vera úr sögunni.