Tónleikaröðin Klassík í Bergi á Dalvík hefst í dag, laugardaginn 9. nóvember kl. 16:00 en þá mun gítarleikarinn Arnaldur Arnarson halda tónleika.

Arnaldur er einn virtasti gítarleikari okkar Íslendinga. Hann fæddist í Reykjavík árið 1959 og hóf gítarnám í Svíþjóð. Hann lærði síðan í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Gunnari H. Jónssyni og stundaði framhaldsnám í Englandi og á Spáni. Hann vann fyrstu verðlaun í XXI alþjóðlegu “Fernando Sor” gítarkeppninni í Róm 1992 og hélt sama ár einleikstónleika á Listahátíð í Reykjavík. Hann hefur margoft komið fram á Íslandi og haldið tónleika í Evrópu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Suður Ameríku.

Arnaldur er aðstoðarskólastjóri Luthier Tónlistar- og dansskólans í Barcelona þar sem hann kennir jafnframt gítarleik.

Heimild: dalvik.is