Afleiðingar óveðursins í Skagafjarðarhöfnum

Togarar FISK Seafood, Málmey og Drangey, voru báðir bundnir við bryggju í Skagafjarðarhöfnum þegar óveðrið 10. og 11. desember síðastliðinn.  Þessa daga og slitnuðu togvírar og ofurtóg á Drangey í veðurhamnum ásamt því að einn bryggjupolli gaf sig og slitnaði upp úr bryggjukantinum. Hluti áhafnar skipanna ásamt björgunarsveit unnu að því að tryggja landfestar og var sólarhringsvakt á höfninni á meðan veðrið gekk yfir.
Há sjávarstaða, áhlaðandi og mikil ölduhæð varð til þess að mikill sjór gekk á land við Skarðseyrina og var Eyrin umflotin frá hringtorgi og suður fyrir FISK Seafood og flæddi meðal annars inn í húsnæði sláturhússins og FISK Seafood. Grjótgarður við Skarðseyri skemmdist töluvert og barst mikið af möl, grjóti og þara inn yfir Skarðseyrina.
Í Hofsóshöfn sökk bátur sökum ísingar og sjólags en ekki varð teljandi tjón á smærri bátum á Sauðárkróki.

Viðbragðsaðilar, starfsmenn Skagafjarðarhafnar og áhafnir skipanna unnu í erfiðum aðstæðum til að koma í veg fyrir stórtjón á skipum, mannvirkjum og fólki.

Ljóst er á afleiðingum veðursins að úrbóta er þörf á hafnarsvæðinu í Skagafirði, m.a. úrbætur á núverandi hafnarkanti og frekari landvinninga á Eyrinni. Höfninni vantar sárlega dráttarbát sem eykur öryggi í aðstæðum sem þessum og auðveldar alla vinnu við móttöku og brottför stærri skipa.