AFL sparisjóður sameinast Arion

Tilkynning frá Arion banka vegna AFL Sparisjóðar á Siglufirði og Sauðárkróki:

AFL sparisjóður hefur um nokkurra mánaða skeið ekki uppfyllt kröfu Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall og hefur Arion banki, sem langstærsti eigandi stofnfjárs, unnið að málefnum sjóðsins í samstarfi við stjórn hans, Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið.

Í upphafi maímánaðar gerðu Arion banki og Samkeppniseftirlitið með sér sátt þar sem kveðið er á um að bankinn skuli selja eignarhlut sinn í opnu söluferli. Eignarhlutur Arion banka er 99,3% stofnfjár.

AFL sparisjóður fékk endurskoðendur KPMG til að meta lánasafn sjóðsins. Sú vinna hefur leitt í ljós að staða sjóðsins er mun verri en fram kemur í síðasta ársreikningi og þarf sjóðurinn á verulegu eiginfjárframlagi að halda til að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall. Úrlausn lagalegs ágreinings varðandi erlend lán AFLs myndi þar engu breyta um. Eftirlitsaðilar hafa verið upplýstir um stöðu sjóðsins. Að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið hefur Samkeppniseftirlitið nú endurskoðað fyrri ákvörðun og heimilað Arion banka að sameina AFL sparisjóð bankanum þar sem sparisjóðurinn er talinn fjármálafyrirtæki á fallanda fæti.

Því hefur verið fallið frá ákvörðun um sölu AFLs og mun Arion banki þegar í stað ráðast í að sameina AFL sparisjóð bankanum. Þar til sameiningarferlinu er lokið mun Arion banki standa þétt að baki AFLi sparisjóði og veita honum þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg er. Þetta á bæði við um ný útlán sem og innlán viðskiptavina. AFL sparisjóður er staðsettur á Siglufirði og rekur auk þess útibú á Sauðárkróki. Markmið Arion banka er að reka öfluga fjármálaþjónustu á starfssvæði AFLs sparisjóðs og leggja þannig sitt af mörkum til uppbyggingar atvinnulífs og samfélags á svæðinu.