AFL sparisjóður og Arion banki

AFL sparisjóður og Arion banki

Um árabil hefur staða AFLs sparisjóðs verið erfið og óvissa um rekstrarhæfi sem hefur takmarkað möguleika sjóðsins til að veita einstaklingum og sérstaklega fyrirtækjum öfluga fjármálaþjónustu. Nú stendur samruni AFLs sparisjóðs og Arion banka fyrir dyrum eftir að í ljós kom hve alvarleg staða sparisjóðsins í raun er. Ráðist er í samrunann til að koma í veg fyrir frekara tjón og tryggja hagsmuni viðskiptavina sparisjóðsins, starfsfólks, stofnfjáreigenda og skattgreiðenda.

Þegar samruninn er um garð genginn munum við hjá Arion banka leggja okkur fram um að þjónusta vel íbúa Fjallabyggðar og Skagafjarðar. Við samrunann  bætist útibú á Siglufirði við útibúanet bankans en Arion banki er í dag með útibú bæði á Ólafsfirði og Sauðárkróki.

Nokkur umræða hefur skapast um AFL sparisjóð og fyrirhugaðan samruna við Arion banka. Tel ég því rétt að fara aðeins yfir forsögu málsins og koma staðreyndum á framfæri.

Arion banki eini aðilinn sem hefur stutt fjárhagslega við AFL frá árinu 2009

Arion banki kom fyrst að AFLi árið 2009 þegar bankinn eignaðist 94,5% hlut í sparisjóðnum samkvæmt ákvörðun FME. Sparisjóðurinn kom mjög laskaður út úr fjármálahruninu. Þrátt fyrir að Arion banki hafi nú um árabil átt nánast allt stofnfé þá hefur hann ekki haft eignlegt forræði yfir sjóðnum og ekki haft aðrar upplýsingar um rekstur sparisjóðsins en fram koma í ársreikningum hans. Þetta kann að hljóma einkennilega þar sem stofnfé er nánast allt i í eigu bankans og AFL hluti af samstæðu Arion banka, en þetta hefur engu að síður verið raunin. Það gefur auga leið að þetta hefur ekki verið ákjósanleg staða. Engu að síður hefur Arion banki stutt ötullega við AFL sparisjóð og reynt eftir fremsta mætti að skýra stöðu og framtíð sjóðsins.

 • Niðurfelling skulda: Arion banki felldi skilyrt niður skuldir að fjárhæð 2,4 milljarðar króna á árinu 2011 til að tryggja rekstrarhæfi sjóðsins en eigið fé var orðið verulega neikvætt. Engir aðrir, hvorki stofnfjáreigendur né aðrir, lögðu AFLi til fjármagn á þeim tíma.
 • Fjármögnun: Arion banki er eini aðilinn sem hefur veitt AFLi langtímalán frá árinu 2009 og er í dag eini lánveitandi AFLs fyrir utan innstæðueigendur. Að auki hefur bankinn breytt lánum sem ekki voru víkjandi í víkjandi lán og ítrekað framlengt lán til sjóðins.
 • Stutt við rekstur: 60% af þjónustutekjum sparisjóðsins eru tilkomnar vegna fjarvinnsluþjónustu sem Arion banki hefur um árabil keypt af AFLi.
 • AFL boðinn til sölu: Á árinu 2011 auglýsti bankinn stofnfjárhluti sína til sölu en hvorki fjárfestar né aðrir stofnfjárhafar sýndu áhuga. Eitt tilboð barst sem ekki var hægt að ganga að.
 • Stofnfjárhöfum gert kauptilboð: Arion banki gerði öðrum stofnfjárhöfum tilboð um kaup á þeirra hlut og var þeim boðið 75% yfir bókfærðu virði eiginfjár. Við þetta jókst hlutur bankans úr 95% í rúm 99%, án þess þó að bankinn fengi forræði yfir sparisjóðnum.
 • Orðið við óskum stjórnvalda: Stjórnvöld hafa ítrekað óskað eftir svigrúmi til að koma að málum sjóðsins og hefur það ávallt verið veitt. En því miður þá kom ekkert út úr þeirri viðleitni og engin ríkisstjórn hefur verið tilbúin til að leggja AFLi sparisjóði til fjármagn. Á sama tíma hafa aðrir sparisjóðir þar sem ríkið fór með meirihluta stofnfjár, sumir hverjir í betri stöðu en AFL, sameinast Landsbankanum og má þar nefna SPKef, Sparisjóð Vestmannaeyja og nú mögulega Sparisjóð Norðurlands. Það má vel rökstyðja að sá dráttur sem á málum varð vegna þessara óska hafi aukið á tjón bankans.

Frá árinu 2009 hefur Arion banki þannig verið eini aðilinn sem hefur raunverulega sýnt í verki að hann er reiðbúinn að styðja við AFL sparisjóð og þar með það samfélag sem sjóðurinn þjónustar.

AFL uppfyllti ekki eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins um síðustu áramót

Um síðustu áramót varð ljóst að AFL sparisjóður uppfyllti ekki eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins, en Fjármálaeftirlitið hafði ekki framkvæmt sérstaka skoðun á stöðu sjóðsins fram að þeim tíma. Fékk stjórn sjóðsins tímabundinn frest frá eftirlitinu til að leiðrétta þá stöðu. Ábending endurskoðenda sjóðsins í ársreikningi AFLs fyrir árið 2014 sýnir glögglega hversu erfið staða sjóðsins var. Í skýringum með ársreikningnum kemur meðal annars fram:

 • Eigið fé sjóðsins var 780 milljónir króna og sjóðurinn uppfyllti ekki kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall.
 • Ekki hafi tekist nægjanlega vel að greiða úr málum viðskiptavina í kjölfar efnahagshrunsins.
 • Vanskil voru töluverð eða um 1,7 milljarðar króna og að upplýsingar sem liggja þar til grundvallar á einstökum lánum og lánasöfnum séu ekki fullnægjandi.
 • Lán voru færð niður um 460 milljónir en að töluverð óvissa sé í því mati.
 • Á árinu 2012 færði sparisjóðurinn til tekna, vegna ágreinings um lögmæti erlendra lána (skulda sjóðsins), 941 milljón króna. Neikvæð niðurstaða fyrir sjóðinn úr þeim ágreiningsmálum gæti valdið því að bakfæra þyrfti 711 milljónir króna.
 • Vafi lék á rekstrarhæfi sjóðsins og óvissa ríkti um hvort sjóðurinn gæti innleyst eignir og staðið við skuldbindingar sínar við eðlileg rekstrarskilyrði.

 

Mat KPMG á eignum AFLs sýndi mjög alvarlega stöðu

Sökum þess að eignfjárkrafa AFLs var komin langt undir lögbundin mörk fékk Arion banki í samráði við Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið heimild til að fara með yfirráð yfir sparisjóðnum, með það að markmiði að selja sjóðinn. Ný stjórn var kjörin sem skipuð er starfsfólki bankans. Til að undirbúa söluferlið var KPMG fengið til að meta útlánasafn sjóðsins. Meðal annars í ljósi ábendingar endurskoðanda í ársreikningi þótti full ástæða til að gera það áður en sjóðurinn yrði seldur.

Niðurstaða þeirrar úttektar sýndi að staða sjóðsins var mun alvarlegri en áður var talið. Taldi KPMG að eignir sjóðsins væru ofmetnar um rétt tæpan milljarð króna umfram það sem áður var talið. Eftir að FME og sérstakir kunnáttumenn, sem höfðu eftirlit með söluferlinu, höfðu yfirfarið vinnu KPMG þótt ógjörningur að halda áfram með söluferlið og samþykkti Samkeppniseftirlitið að Arion banki mætti sameina AFL bankanum. Allir eftirlitsaðilar, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og Seðlabankinn, voru þannig upplýstir um alvarleika málsins og FME hefur síðan áréttað að það telur mat KPMG vera áreiðanlegt.

Ágreiningur um lögmæti lána breytir ekki stöðu sjóðsins

Fram hefur komið að ágreiningur sé um lögmæti erlendra lána AFLs sparisjóðs, þ.e. um hluta skulda sjóðsins við Arion banka sem eru í erlendri mynt. Til að taka á þessum ágreiningi ákvað sjóðurinn að höfðu samráði við Arion banka að leita til dómstóla. Einn dómur er fallinn, AFLi í óhag, þ.e. umrædd lán voru talin lögmæt. Dómnum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Það er rangt að úrlausn þessara mála breyti einhverju um grafalvarlega stöðu sjóðsins, það myndi hún ekki gera jafnvel þó öll álitamál féllu AFLi í vil.

Villandi umræða um samfélagssjóð

Í lögum um sparisjóði er kveðið á um samfélagssjóð. Slíkur sjóður verður aðeins til við slit sparisjóðs ef eigið fé er umfram stofnfé við slit sjóðsins. Því miður fer fjarri að þetta sé staðan hjá AFLi sparisjóði.

 • Stofnfé AFL sparisjóðs er 1.522 milljónir króna.
 • Um síðustu áramót vantaði 742 milljónir króna upp á að eigið fé væri jafnt stofnfé sparisjóðsins.
 • Í ofanálag eru eignir sjóðsins ofmetnar um tæpan milljarð króna samkvæmt mati KPMG.
 • Þau lagalegu ágreiningsmál sem eru uppi á milli Arion banka og AFLs vegna erlendra lána gætu í besta falli, ef þau féllu öll sjóðnum í vil, aukið eigin fé sjóðsins um 300 milljónir.
 • Það er hins vegar líklegra að málin falli sjóðnum í óhag og þá þarf að bakfæra áðurnefndar 711 milljónir króna.
 • Allar líkur standa því til að eigið fé sjóðsins sé verulega neikvætt.

Allt tal um samfélagssjóð í þessu samhengi er því ábyrgðarlaust og aðeins til þess fallið að villa um fyrir almenningi. Erfitt er að átta sig á hvað mönnum gengur til með slíkum málflutningi, á ég t.a.m. við ummæli bæjarstjóra Fjallabyggðar í fjölmiðlum. Í þessu sambandi er einnig rétt er að nefna að við slit sjóðsins munu óháðir aðilar koma að málum og meta hvort til staðar sé óráðstafað eigið fé.

Framtíðaráform Arion banka í Fjallabyggð

Þegar samruni AFLs og Arion banka verður um garð genginn þá munum við hjá Arion banka veita íbúum í Fjallabyggð og Skagafirði góða fjármálaþjónustu með reynslumikið starfsfólk í forsvari. Á Siglufirði verður starfrækt útibú sem hefur burði til að veita einstaklingum og fyrirtækjum öfluga fjármálaþjónustu.

 • Við munum starfrækja útibú bæði á Ólafsfirði og Siglufirði.
 • Við munum verða með enn öflugri þjónustu á Sauðárkróki.
 • Áframhald verður á þeirri fjarvinnslu sem farið hefur fram fyrir Arion banka á Siglufirði en um helmingur starfsmanna AFLs sinnir fjarvinnslu fyrir Arion banka.

Vonir okkar standa til að eiga gott samstarf og ánægjuleg viðskipti við íbúa Fjallabyggðar og Skagafjarðar og vera góður samstarfsaðili í þeim verkefnum sem einstaklingar og fyrirtæki taka sér fyrir hendur.

Haraldur Guðni Eiðsson

Forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka

HaraldurGudni_litur_stor

Texti og mynd: Innsent efni.