Afhjúpa minnisvarða um Gústa guðsmann

Minnisvarði um Gústa guðsmann verður afhjúpaður laugardaginn 13. október á Ráðhústorginu á Siglufirði. Hátíðleg athöfn verður við styttuna sem hefst kl. 13:30 og eru allir velkomnir.

Ágúst Gíslason, eins og hann hét réttu nafni, fæddist 29. ágúst árið 1897. Hann lést 25. mars árið 1985.

Minnisvarðinn mun varðveita um ókomna tíð minninguna um guðsmanninn, kristniboðann, sjómanninn og alþýðuhetjuna. Styttan mun setja sterkan svip á Ráðhústorgið á Siglufirði.

Á koparplatta sem verður við styttuna stendur meðal annars: Hann var alþýðuhetja og mikill mannvinur sem gaf allt sitt aflafé til fátækra barna víða um heim.  Gústi lifði eftir orðum Krists: Sælla er að gefa en þiggja.

Opnaður hefur verið styrktarreikningur í Arion banka á Siglufirði til að kosta gerð styttunnar og hafa margir lagt fram fé nú þegar.

Númer reikningsins er: 0348 – 26 – 2908
Kennitala áhugamannafélagsins er 500817-1000