Æfingar barna á Norðurlandi geta hafist aftur

Undanfarnar tvær vikur hefur verið talsverður fjölda Covid smitaðra einstaklinga í einangrun og enn fleiri í sóttkví á Norðurlandi eystra. Fljótt varð ljóst að fjölmennasti hluti þeirra sem voru að smitast voru börn og unglingar á grunnskólaaldri þó svo að smitin næðu einnig inn í aðra aldurshópa. Áberandi var að börn sem ekki höfðu fengið bólusetningu voru þar fjölmennust.
Aðgerðastjórn Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra gaf út þau tilmæli fyrir viku síðan að æskulýðs-, íþrótta- og félagsstarfi barna og unglinga á grunnskólaaldri yrði ýtt til hliðar í viku tíma til að vinna bug á þessari stöðu og ná böndum yfir frekari dreifingu smita.
Fjöldi smita hélt áfram að vaxa og allt að 1300 manns voru í sóttkví á tímabili en nú erum við farin að sjá þróun til betri vegar þó svo að fjöldi smitaðra einstaklinga í umdæminu sé með hæsta móti. Nú um helgina voru 10 smit staðfest en þar af voru aðeins 2 utan sóttkvíar.
Aðgerðarstjórn LSNE fór yfir stöðuna nú í morgun ásamt fulltrúum frá Landlækni og rakningateyminu. Niðurstaðan var sú að ekki væri talin þörf á að viðhalda þeim tilmælum sem gefin voru fyrir viku síðan hvað varðar æskulýðs-, íþrótta- og félagsstarfi barna og unglinga á grunnskólaaldri.
Það breytir því samt ekki að við hvetjum alla að huga vel að persónulegum smitvörnum og þá sérstaklega þar sem ungmenni koma saman og tryggja aðgengi að sótthreinsibúnaði á slíkum stöðum.
Frá þessu var greint á samfélagsmiðlum Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.