Aðsend grein vegna Fræðslustefnu Fjallabyggðar

Val nemenda eykur áhuga þeirra.

Hlutverk skólans er að veita almenna menntun til þess að undirbúa einstaklinga undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Menntun er ætlað að stuðla að alhliða þroska einstaklinga og gefa þeim tækifæri til þess að tileinka sér þá þekkingu, leikni og hæfni sem nauðsynleg telst til að vera virkur þjóðfélagsþegn og þar með að takast á við áskoranir daglegs lífs.

Þar sem nám er afar einstaklingsbundið og hefur mismundandi áhrif á hvern og einn eru nokkrir þættir sem vert er að hafa í huga sem bæði reynsla og rannsóknir hafa leitt í ljós. Þættir sem hafa áhrif á náms- og félagslega upplifun og árangur nemenda.

Menntarannsóknir hafa sýnt að virkni nemenda eykst með því að bjóða upp á val í einhverri mynd. Val getur verið misjafnlega útfært, t.d. það að velja á milli viðfangsefna, velja hvoru viðfangefninu þú lýkur á undan, val um með hverjum þú vinnur, eða hvort þú vinnur einn, val á námsaðstæðum, viltu sitja við borð, standa við borð, sitja í sófa, liggja á teppi og þannig mætti lengi telja. Með vali eflum við líka áhugahvöt nemenda og það á ekki eingöngu við um námið heldur einnig félaglega þætti og tómstundastarf.

Í krafti fjöldans hefur verið boðið upp á frístund í vetur, ef ekki væri fyrir fjöldan þá væri valið takmarkaðara. Það sama á við valfögin sem boðið er upp á í samstarfi við menntaskólann, fjöldi nemenda gefur færi á fjölbreyttari valtækifærum.

Ég tel okkur vera ómetanlega lánsöm að hafa skóla á framhaldsskólastigi í sveitarfélaginu okkar, það er svo sannarlega eitthvað sem er ekki sjálfgefið. Ég tel að okkur beri skylda til að nýta þetta tækifæri, það felast t.d. í því að gefa nemendum sem skara fram úr tækifæri til þess að stunda nám við hæfi, ekki til að flýta sér í gegnum námið eins og sumir virðast misskilja.

Við hvert skref sem tekið hefur verið síðustu ár til þess gera skólann okkar heildstæðari hef ég fagnað. Ég fagna vegna þess að hvert skref hefur verið til gæfu fyrir heildarsýn skólans. Það er mikil framþróun í skólamálum hér á landi sem og úti í heimi. Við megum ekki dragast aftur úr. Það er skylda okkar að bjóða nemendum Grunnskóla Fjallabyggðar upp á bestu mögulegu tækifærin til náms sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða.

Mitt álit er að núverandi fræðslustefna Fjallabyggðar sé rétta skrefið í átt til framtíðar. Með stefnunni er boðið upp á jöfn tækifæri til náms fyrir alla nemendur innan árganga, samvinnu á milli allra menntastofnanna sveitarfélagsins og eflingu samvinnu kennara og nýtingu sérfærðiþekkingar þeirra. Horfum til framtíðar samfélagi okkar til heilla.

Höfundur: Ólöf Kristín Ásgeirsdóttir, grunnskólakennari í Grunnskóla Fjallabyggðar.