Börnin okkar eru það mikilvægasta og dýrmætasta sem við eigum. Við hjá H-listanum ætlum að gera vel við barnafjölskyldur og einn liður í því er að lækka kostnað heimilanna. Það getum við meðal annars gert með því að auka systkinaafsláttinn í leikskólanum og tengja hann við skólavistun. Fyrir yngsta barn verði greitt fullt gjald, fyrir annað barn verði helmings afsláttur og fyrir þriðja barn og umfram verði gjaldfrjálst. Þessi afsláttur eigi við hvort sem börnin eru í leikskóla eða nýti sér skólavistun að skóladegi loknum.

Við ætlum að stefna að því að Grunnskóli Fjallabyggðar verði gjaldfrjáls. Það þýðir að öllum nemendum verði boðið upp á skólamáltíðir sér að kostnaðarlausu og að áfram verði námsgögn innifalin. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir þýðir sparnaður upp á 94 þúsund krónur á skólaári fyrir eitt barn.

Við ætlum einnig að hækka frístundastyrkinn úr 30.000 kr. í 40.000 kr. og gera hann rafrænan til að hagræða ráðstöfun hans. Árið 2017 fengu börn á aldrinum 4-18 ára 20.000 kr frístundaávísanir, samtals að andvirði 6.560.000 kr. Nýtingin var 4.427.873 kr. eða 67,5% af útgefnum ávísunum. Árið 2018 voru gefnar út frístundaávísanir að andvirði 9.510.000 kr. sem eru 30.000 kr á hvert barn á aldrinum 4-18 ára. Með rafrænu leiðinni eru miklar líkur á að nýting á frístundastyrkjum muni aukast. Þar að auki er rafræna leiðin umhverfisvænni.

Markmiðið er að bæta velferð barna og unglinga í sveitarfélaginu. Þetta verður vonandi einnig til þess að hvetja barnafólk til að flytja í sveitarfélagið.

Setjum x við H – Fyrir fólkið

Særún Hlín Laufeyjardóttir
2. sæti H-listans – Fyrir Heildina

Texti og mynd: aðsent.