Aðsend grein – Hugleiðingar H-lista manns

Nú í aðraganda kosninga er engin hörgull á loforðum framboða um það hvernig eigi að ráðstafa féi bæjarsjóðs næstu árin. Sjaldan rekst maður á góðar hugmyndir varðandi uppbyggingu atvinnu og þar af leiðandi tekjuöflun.

Fjallabyggðahafnir hafa nú á dögum ágæta hafnaraðstöðu í báðum byggðarkjörnum. Þrátt fyrir að veiðiheimildir og skipakostur hafi svo sannarlega verið meiri hér áður fyrr, þá hefur það færst töluvert í vöxt að skip með heimilisfesti annarsstaðar en í Fjallabyggð komi hingað til löndunar.  Vert er að hafa í huga að þessi aðkomuskip sem kosið hafa að landa hér skilja eftir sig töluverða fjármuni bæði hjá bæjarsjóðum sem og þjónustuaðilum ýmsum hérna í Fjallabyggð.

Eitt af þessum gjöldum sem öll skip stór og smá greiða til löndunarhafnar er aflagjald og nemur það 1.6% verðmæta landaðs afla og rennur gjald þetta á endanum í bæjarsjóð. Þá á eftir að telja til margfeldisáhrif eins og þjónustu fiskmarkaða eða löndunarfyrirtækis, viðlegugjald í fjallabyggðahöfnum, verslun og viðskipti með ýmsa þjónustu eins og við vélaverkstæði, olíuumboð, matvöruverslanir og svo framvegis.

Sem sjómaður og smáútgerðarmaður hef ég horft mikið til þess hvort ekki væri hægt að nýta hafnarmannvirki okkar betur. Bæjaryfirvöld ásamt hagsmunaaðilum á svæðinu t.d. Fiskmarkaðs Siglufjarðar, JE vélaverkstæðis, Vélsmiðju Ólafsfjarðar, Vélsmiðju Einars, og fleiri þjónustuaðila  á svæðinu gætu ráðist í sameiginlegt átak til að fjölga útgerðum sem kjósa að nota Fjallabyggðarhafnir sem þjónustuhöfn. Er ég þá að leggja til að farið verði í markvissa kynningu með auglýsingum og útsendingu upplýsinga til útgerða vítt og breitt um landið.

Fjallabyggð gæti lækkað örlítið aflagjaldið eða önnur gjöld og slegið þar með tvær flugur í einu höggi;  Gert Fjallabyggð að hagkvæmari kosti til löndunar og þjónustu, sem og komið til móts við þær útgerðir sem þó starfa ennþá á svæðinu þar sem miklir erfiðleikar hafa verið í útgerð stórri og smárri að undanförnu.

Ef okkur tækist að fjölga aðkomuskipum sem kjósa að nota þjónustu okkar, þá myndi það leiða af sér margfeldisáhrif sem myndu koma öllum í Fjallabyggð vel.

Hugleiðingar eru til alls fyrstar, og vonandi ber okkur gæfa til þess að taka höndum saman og nýta þá þegar tilbúna innviði okkar hérna í Fjallabyggð til tekjuöflunar.

 

Höfundur:

Andri Viðar, 6. sæti H-listans… sem er fyrir HEILDINA

 

Texti: aðsent.