Aðsend grein frá Helgu Helgadóttur bæjarfulltrúa í Fjallabyggð

Í ljósi þeirra ummæla sem um mig hafa verið höfð á samfélagsmiðlum undanfarna mánuði og til dagsins í dag, þar sem mér hefur meðal annars verið líkt við einræðisherra á borð við Putin og ég sökuð um valdníðslu, hroka, að hafa troðið ofan í kok á fólki og vinnubrögð sem á engan hátt standast kröfur nútímans og tengist aðkomu minni að fræðslustefnu Fjallabyggðar langar mig að koma eftirfarandi á framfæri.

Í störfum mínum sem bæjarfulltrúi í Fjallabyggð hef ég lagt mig fram við það að taka ákvarðanir um öll mál er snúa að sveitarfélaginu á faglegum nótum, að vel athuguðu máli og ígrunduðu. Um ákvarðanir mínar má svo deila og algjörlega ljóst að fólk er ekki alltaf sammála mér eins og gengur og gerist. Ég hef ekki notað samfélagsmiðla til þess að troða nokkrum sköpuðum hlut ofan í kokið á íbúum né munnhöggvist við fólk um ákvarðanir mínar á þeim vettvangi og mun halda mig við það í framtíðinni.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru í minnihluta þegar ákveðið var að stofna vinnuhóp um endurskoðun á fræðslustefnu Fjallabyggðar. Hvorki ég né S. Guðrún Hauksdóttir höfðum aðkomu að þessum hópi frekar en aðrir bæjarfulltrúar. Þáverandi formaður fræðslunefndar sat í hópnum fyrir hönd bæjarstjórnar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu engin afskipti af ákvörðunum hópsins sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem hópurinn komst að og skilaði til bæjarstjórnar. Fyrir þá sem ekki vita var hópurinn skipaður skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar ásamt fulltrúa kennara, skólastjóra Leikskóla Fjallabyggðar ásamt fulltrúa leikskólakennara, skólastjóra Tónlistarskólans á Tröllaskaga og skólameistara Menntaskólans á Tröllaskaga. Vinnuhópnum stýrði þáverandi deildarstjóri fræðslu- frístunda og menningarmála sem svo hvarf til annarra starfa í byrjun árs 2017.

Varðandi það vinnulag sem hópurinn ákvað að setja sér við þessa vinnu get ég ekki svarað fyrir en segi þó að reynt var að ná til almennings. Meðal annars var auglýstur fyrirlestur um fræðslumál í Tjarnarborg mjög snemma í ferlinu sem svo var felldur niður vegna ónógrar þátttöku. Einnig var opin facebook síða um fræðslustefnu Fjallabyggðar þar sem lítil sem engin umræða skapaðist frá íbúum um fyrirkomulag fræðslumála í Fjallabyggð. Af hverju veit ég ekki en þykir miður.

Einhverjir hafa nefnt að betur hefði átt að standa að vinnulagi er varðaði kynningu fræðslustefnunnar þegar hún lá fyrir hjá bæjarstjórn og því deili ég með þeim. Því miður urðu mistök við vinnslu málsins þess valdandi að bæjarstjórn hafði ekki svigrúm til þess að kynna málið með þeim hætti sem til stóð. Kynning á fræðslustefnunni fór engu að síður fram. Haldnir voru sérstakir kynningarfundir í þessari röð; fyrir aðal- og varabæjarfulltrúa, fræðslu- og frístundanefnd, aðal- og varamenn, allt starfsfólk leik,- grunn,- og framhaldsskóla og íbúa. Auk þess var kallað eftir umsögn frá skólaráði og foreldrafélögum grunn- og leikskóla. Undirrituð sat þrjá af þessum fundum auk þess að eiga samtöl við aðila í vinnuhópnum eina og sér og tók að lokum ákvörðun byggða á þeim faglegu rökum sem fyrir lágu og unnin voru út frá núgildandi lagaramma um fræðslumál í landinu, aðalnámskrám grunn- og leikskóla, niðurstöðum ytra mats Menntamálastofnunar á Grunnskóla Fjallabyggðar og mögulegum tækifærum sem í menntastofnunum samfélagsins búa. Að mínu mati er fræðslustefna Fjallabyggðar mjög metnaðarfull framtíðarsýn um menntun barna þessa samfélags sem ég sé gríðarleg tækifæri í og lið í því að við sem samfélag getum orðið samferðamenn samtímans.

Ég viðurkenni fúslega og hef sagt við hvern sem er að niðurstaða hópsins olli mér til að byrja með umtalsverðu hugarangri. Ég gerði mér fullvel grein fyrir þeim áhrifum sem kennslufyrirkomulag það sem hópurinn lagði til og fræðslustefnan hékk á hefði áhrif á íbúa Fjallabyggðar, sérstaklega á foreldra yngri barna í Ólafsfirði. Ég gat vel sett mig í þeirra spor og velti því í alvöru fyrir mér hvort ég vildi bera þessa ábyrgð og taka þennan slag. Sjálf upplifði ég árið 2009 mikla hræðslu þegar mér og öðrum foreldrum barna á unglingastigi var tilkynnt ákvörðun þáverandi bæjarstjórnar á fundi í Tjarnarborg það vor að aka ætti með börnin okkar um Lágheiði til Siglufjarðar þar til Héðinsfjarðargöng opnuðu, sem var 2. október 2010. Með mitt barn, sem mér þykir ekkert minna vænt um en öðrum foreldrum um sín börn, var því ekið daglega í rúman mánuð, 124 km í rútu til Siglufjarðar um Lágheiði. Ég hugsaði bæjarstjórn þegjandi þörfina en þakka fyrir í dag að það var það eina sem ég gerði. Það tók mig ekki langan tíma að sjá að barnið mitt var jú þreytt þegar það kom heim en mjög ánægt, fannst gaman að fara í skóla á Siglufirði og kynnast nýjum krökkum. Þetta barn mitt deilir því með mér að vera þakklátt framtíðarsýn og áræðni þáverandi bæjarstjórnar svo það komi fram. Tilfinningarökin héldu ekki. Á skólaakstur er nú komin rúmlega 7 ára reynsla og bæjarstjórn hefur tryggt öryggi allra barna í skólarútunni umfram kröfur reglugerðar. Skólaakstur er felldur niður nokkra daga á skólaári vegna veðurs eða tvísýnu þar um. Börn mæta þá í skólann í sínum byggðarkjarna.

Um kennslu 1.-4. bekkjar í báðum byggðarkjörnum og samkennslu sem ég sjálf ásamt öðrum lagði til og samþykkti í bæjarstjórn 2011, meðal annars með þeim rökum að mér fannst ekki komin nægileg reynsla á skólaakstur og að samkennsla hefði reynst vel og gæti komið til móts við margvíslegar námsþarfir barna, hef ég þetta að segja. Ég hef sjálf fjögurra ára reynslu af samkennslu barnsins míns og það fyrirkomulag þótti mér alls ekki standast væntingar. Ég deili því með öðrum að samkennslu fylgdi mikið rask fyrir mitt barn, nýr sambekkur á hverju ári og nýr kennari að mig minnir annað hvert ár. Barnið mitt var stöðugt að fóta sig upp á nýtt sem tafði fyrir námi. Þegar samkennslutímabilið var loksins afstaðið og börn frá Ólafsfirði og Siglufirði komu saman í 5. bekk tók við endurtekið efni, að fóta sig í nýjum jafningjahópi. Barnið mitt eins og önnur börn bjó við þennan „félagslega óstöðugleika“ ef svo má að orði komast, helming sinnar skólagöngu. Út frá minni reynslu og annarra hef ég þá skoðun að það séu forréttindi barna í Fjallabyggð að kynnast jafnöldrum sínum strax við upphaf skólagöngu og muni síður en svo koma niður á námslegri færni þeirra. Niðurstaða ytra mats Menntamálastofnunar á Grunnskóla Fjallabyggðar styrkti mig enn frekar í þeirri skoðun minni, þar sem í ljós kom í ofanálag ósamræmi í kennslu barna á yngsta stigi. Þau bjuggu ekki við sömu námstækifæri sem mér finnst, hreint út sagt, algjörlega óásættanlegt fyrir börn í sameinuðum grunnskóla. Viðmiðið sem ég hef er skólaganga eldri barna minna sem bjuggu við þau forréttindi að vera í árgangakennslu alla sína grunnskólagöngu. Rök vinnuhópsins varðandi faglegan og félagslegan ávinning árgangakennslu á einum stað keypti ég.

Varðandi spurningu í íbúakosningu þann 14. apríl 2018 vil ég koma því á framfæri að til Rannsóknarmiðstöðvar Háskólanns á Akureyri var leitað um innihald hennar og orðalag. Spurningin er óbreytt frá því sem RHA lagði til og er til þess gerð að svara ákalli íbúa um kosningu nýrrar færðslustefnu í heild sinni, ekki einstakra þátta hennar, eins og birtist bæjarstjórn og RHA í haus undirskriftarlista sem var svona “Tilefni undirskriftasöfnunarinnar er mikil óánægja á meðal íbúa Fjallabyggðar með ákvörðun bæjarstjórnar um breytingar á fræðslustefnu sveitarfélagsins. Undirskriftasöfnunin mun vera ákall og áskorun til bæjarstjórnar um að endurskoða þessar breytingar og setja þær á bið uns farið hefur fram lýðræðisleg kosning með almennri atkvæðagreiðslu bæjarbúa.” (afrit af haus undirskriftalista er í viðhegi hér fyrir neðan).

Það er mín von að fólk gjaldfelli ekki metnaðarfulla framtíðarsýn um fræðslumál í sveitarfélaginu sem hugsuð var til heilla börnum okkar vegna tilfinningaraka, rútuferða sem reynsla er komin á, staðsetningar og útlits skólahúsa eða óánægju með bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem einhverra hluta vegna liggja best við höggi þeirra sex sem þetta samþykktu.
Að lokum vil ég hvetja alla til að kynna sér fræðslustefnu Fjallabyggðar og þau tækifæri sem í henni búa. Efni þessu tengt má finna á heimasíðu Fjallabyggðar og á facebook síðu Fjallabyggðar.

Með vinsemd og virðingu,
Helga Helgadóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð

Helga Helgadóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð.